143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við ræðum hagræðingarmál. Af hverju? Vegna þess að þetta er verkefni okkar allra og við þurfum að sinna því. Það veldur mér miklum vonbrigðum ef sú umræða mun verða um formið en ekki efnið. Hingað hafa hv. stjórnarandstæðingar, sérstaklega fulltrúar Vinstri grænna, komið hver á eftir öðrum og ég vek athygli á ræðu síðasta hv. þingmanns sem spurðist í rauninni fyrir um við hverja þeir sem voru í hagræðingarhópnum töluðu, á hverja þeir hlustuðu. Ég hlýt að spyrja: Hvað vakir fyrir fólki?

Nú er alveg vitað að fjölmargir höfðu samband, það voru persónuleg samtöl, fólk vildi koma upplýsingum á framfæri og hvað mætti betur fara. Er það virkilega þannig að menn vilji lista það fólk upp hér?

Ég vek athygli á því að síðasta ríkisstjórn var með hagræðingarhópa sem í voru hv. þingmenn. Hverjir vissu um þá hópa? Enginn. (Gripið fram í.) Það vissi enginn um þá hópa, það fékk enginn að senda inn tillögur, ábendingar eða nokkurn skapaðan hlut. Almenningur fékk aldrei að vita af þeim.

Nú hefur komið fram hvað eftir annað hvaða gögn var unnið með. Þau eru á netinu. (Gripið fram í.) Þau voru á netinu, virðulegi forseti, fyrir utan nokkur gögn sem var búið að fjárfesta í fyrir skattpeninga, en þau fóru ekki á netið. Hvaða hæstv. ráðherrar skyldu hafa falið þau fyrir fólkinu í landinu? Jú, það voru fyrrverandi hæstv. ráðherrar Vinstri grænna.

Ég held að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Vinstri grænna ættu aðeins að skoða eigin orð og gerðir áður en þeir fara fram á (Forseti hringir.) hluti eins og þessa.