143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Róberti Marshall þegar hann ræðir aðgengi fatlaðra í þinghúsinu. Við vitum að gerð hefur verið tilraun til breytingar á því ræðupúlti sem hér er og ég hvet hæstv. forseta, sem hefur mikinn hug á að þingmenn standi jafnir þegar kemur að þessum ræðustól, til að flýta þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru til að allir geti komið í ræðustól óháð því hver fötlun þeirra er eða að öðru leyti ef fólk hefur lent í slysum og þarf á því að halda að vera í hjólastól eða öðru þess háttar. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að úr þessu verði bætt og það með hraði.

Mig langar að nefna hér að væntanlega hefur ályktun Íslenskrar málnefndar komið í pósti til þingmanna. Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember og okkur hafa verið sendar ályktanir þar að lútandi. Það sem vekur að minnsta kosti áhyggjur hjá mér, sem fyrrum íslenskukennara, er að við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum í skólasamfélaginu vegna þess að innflytjendum hefur fjölgað og við viljum að þeirra hagur innan skólans sé jafn okkar barna sem tala tungumál okkar. Þessir nemendur eru margir hverjir tvítyngdir og hafa jafnvel tvö tungumál fyrir utan íslensku sem þeir eru að fóta sig í. Í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið virðist það sem kemur í veg fyrir að þessum nemendum líði vel í skólanum fyrst og síðast vera léleg kunnátta í íslensku. Þess vegna þarf að gera tvennt, virðulegur forseti: Ég skora á hv. allsherjar- og menntamálanefnd og hæstv. menntamálaráðherra að íhuga með hvaða hætti sé í fyrsta lagi hægt að tryggja kennslu í móðurmáli þessara einstaklinga og í öðru lagi og ekki síður að byggja upp íslenskukunnáttu þeirra til þess að líðan þeirra (Forseti hringir.) og félagsleg færni aukist í skólanum.