143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á mjólkurfyrirtækin í landinu sem framleiða mat sem sérstaklega höfðar til barna. Þar á ég við alls konar jógúrt og tengdar afurðir. Þessi matvæli eru í afar flottum og sölulegum umbúðum, sérstaklega hönnuðum fyrir börn; ein þeirra heitir t.d. hreint út sagt Skólajógúrt.

Þegar maður bragðar á þessum matvörum eiga þær lítið skylt við þá súrmjólk eða það hreina skyr sem ég borðaði með bestu lyst sem krakki en þá var reyndar boðið upp á lítið annað. Ekki er hægt að segja að allt hafi verið hollt og gott í gamla daga, en ég hef áhyggjur af tannheilsu barna okkar og heilsu þeirra almennt í ljósi þess á hverju þau nærast á hverjum degi. Þetta er ekkert nema góðgæti og í raun mjólkurafurð með viðbættum sykri. Ég horfði einu sinni á sjónvarpsþátt þar sem verið var að skoða þetta. Sykurmolunum var raðað upp við hverja jógúrtdós og það var ófögur sjón að sjá sykurmolana sem stóðu við hverja þeirra.

Reyndar hef ég lesið að sama þróun sé við lýði í mörgum öðrum löndum og erlent heilsujógúrt, sem er auglýst sem slíkt, hafi miklu fleiri hitaeiningar en til dæmis súkkulaðikaka. Þarna tel ég að verið sé að leiða neytendur á villigötur og hef ég sérstaklega áhyggjur af börnunum okkar í því sambandi. Ég bið íslensk fyrirtæki á sviði mjólkurafurða að hugsa sinn gang og venda sínu kvæði almennilega í kross og bjóða börnum, og náttúrlega fullorðnum, upp á hollari mat og betri mat, og burt með allan þennan sykur.