143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

sveitarstjórnarlög.

152. mál
[14:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrirspurnirnar og skal með ánægju svara þeim. Breytingarnar eru gerðar að undirlagi og eftir fund sem var haldinn að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga kom að máli við innanríkisráðuneytið til að óska eftir því, að sjálfsögðu og klárlega fyrir hönd ákveðinna sveitarfélaga, að þetta ákvæði sem á sínum tíma var aldrei hugsað sem íþyngjandi heldur ívilnandi, sambandið var á þeirri skoðun að það nýttist ákveðnum sveitarfélögum. Það má alveg eins halda því fram með sömu rökum og gert var í ræðu þingmannsins sem talaði hér áðan, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að þá hafi verið gefið eftir gagnvart ákveðnum sveitarfélögum sem gagnast að taka þessa stöðu ekki inn í reikninga sína, að það þyki ósanngjarnt gagnvart tilteknum öðrum sveitarfélögum sem gagnast að hafa það inni í reikningum sínum.

Það var skoðun Sambands íslenskra sveitarfélaga, og var farið yfir það með eftirlitsnefndinni og eftirlitsnefndin var því sammála, að eðlilegt væri að ákvæðinu eins og það hefði verið hugsað á sínum tíma, sem ívilnandi en ekki íþyngjandi, yrði breytt þannig að það væri valkvætt fyrir sveitarfélögin og þau gætu valið hvernig þau stilltu því upp. Það var sem sagt ekki mat þessara aðila að það hefði í för með sér nokkurn sérstakan slaka annan en þann sem ákvæðið gaf á sínum tíma þegar það var sett. Við þekkjum öll umræðuna sem var um það á sínum tíma — og ég ætla ekki að fara yfir þá umræðu hér, hún var mikið tekin á þeim vettvangi sem ég var á áður en ég kom hingað, á vettvangi sveitarstjórna og vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég geri ráð fyrir að hún hafi líka verið tekin hér — og þess vegna var talið mikilvægt og farsælla að ákvæðið væri tímabundið. Þess vegna er ekki lögð til nein breyting á því.

Fyrst og síðast, og ég vona að ég svari spurningunum með því, er tilefnið beiðni frá þessum aðilum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem taldi að þetta kæmi sér ver fyrir ákveðin sveitarfélög og ákvæðið hefði aldrei verið hugsað sem slíkt. Það er með vitund, ég segi ekki samþykki vegna þess að eftirlitsnefndin samþykkir ekkert formlega en þeir voru með á þessum fundum og gerðu engar athugasemdir við þetta og töldu að það væri sanngjarnt og eðlilegt gagnvart öllum sveitarfélögunum sem sætu þá við sama borð og stæðu jafnfætis í því að geta valið hvort þeir teldu þessa hluti upp eða ekki. Í sumum tilvikum er það farsælt fyrir sveitarfélögin að telja upp orku- og veitufyrirtækin og hafa þau inni. Fyrir aðra er það síðra þannig að það verður í höndum hvers og eins sveitarfélags í þessi tíu ár sem fram undan eru að meta hvernig þau telja þetta best gert.