143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

sveitarstjórnarlög.

152. mál
[14:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég, líkt og hv. þingmaður, treysti hv. nefnd sem fer yfir þetta mjög vel til þess að velta því fyrir sér og skoða hvort hægt sé að orða þetta betur en varð niðurstaðan í innanríkisráðuneytinu. Okkur gengur það eitt til að tryggja að um þetta ríki jafnræði og fyrirtæki standi jafnfætis hvað þetta varðar.

Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að svona löggjöf á aldrei að taka mið af einu sveitarfélagi öðru fremur, en með sömu rökum væri hægt að halda því fram að fyrri löggjöf eins og hún stendur í dag nýttist ákveðnu sveitarfélagi. Við skulum bara nefna það sveitarfélag: Það gagnast Reykjavíkurborg sérstaklega vel að ákvæðið var með þessum hætti, það gagnast sérstaklega vel að þetta sé ekki tekið með í reikninginn. Það er mikilvægt að mínu mati, alveg eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á, að öll sveitarfélögin standi jafnfætis og að þau geti valið hvort þau hafa þetta inni, fyrst við vorum á annað borð að veita ákveðna bráðabirgðaundanþágu til tíu ára. Það voru rökin hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ég get að hluta til tekið undir þau vegna þess að ef menn líta til dæmis á reikninga höfuðborgarinnar þá gagnast það höfuðborginni að taka þetta ekki inn í reikningana á þessum tímapunkti. Þess þarf að gæta að öll sveitarfélögin geti þá valið um það hvernig þau standa gagnvart þessu ákvæði. Þetta ákvæði hefur hins vegar komið verr úr fyrir önnur sveitarfélög.

Það er alveg rétt að mörg sveitarfélög, og það á ekkert við eitt öðru fremur, hafa staðið frammi fyrir ákveðnum breytingum og ákveðnum ögurstundum vegna fjármála í kjölfar mikilla breytinga hér á landi, en tilgangurinn er ekki að koma til móts við eitt sveitarfélag öðru fremur heldur að tryggja að þau geti með jöfnum hætti nýtt sér þetta bráðabirgðaákvæði til þess tíma sem gefinn er upp í lögunum.