143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði sjálfur að makrílútgerðirnar bæru stóran hluta af veiðigjaldinu, gott ef hann sagði ekki stærstan. Það sýnir einmitt að það sem fyrri ríkisstjórn gerði var rétt. Hún lagði á veiðigjald sem var með þeim hætti að þeir sem fá ofurhagnað af sinni grein borga meira en aðrir. Það átti þó ekki að vera efni ræðu minnar hér.

Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, er fullfær um að verja sjálfan sig en hann er ekki staddur hér. Þess vegna kem ég hingað til að vísa því til föðurhúsanna sem einhverju sérstöku nýmæli að hv. þingmaður hafi rætt hér í gær að hann og okkar flokkur vildu gjarnan taka það upp að setja til dæmis makríl í gegnum markað. Það átti ekki að vera neitt nýtt fyrir hv. þingmanni. Ég geri ekki ráð fyrir því að minni hans sé tekið að reskjast umfram hans fremur unglega útlit þannig að hann ætti að muna að á síðustu árum hefur þetta verið ein af höfuðprýðunum í stefnu Samfylkingarinnar. Ég segi eins og hæstv. fjármálaráðherra sem var spurður um það hér um daginn af hverju tiltekið stefnumál í stefnu Sjálfstæðisflokksins væri ekki að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði: Þegar tveir flokkar eru verður málamiðlun.

Herra forseti. Við eigum hér í málefnalegri umræðu. Mér þótti vænt um að heyra hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að hann gerir sér grein fyrir því að þessi úthlutun er nánast eins og kylfa hafi ráðið kasti. Hann hafði engin rök fyrir því af hverju skiptingin er 70:30. Hann sagði að þau fyrirtæki sem hefðu byggt sig upp á þessum veiðum síðustu þrjú ár gætu ekki með þessari skerðingu, ef þau fá 30 prósentin, haldið áfram starfsemi. Hann ætti að skoða þingtíðindin, kannski meinti hann þetta ekki, en þetta sagði hann.

Það sem ég gleðst yfir í öllu falli er að hv. þingmaður gerir sér grein fyrir því og telur að það séu einhver úrræði til að bæta þeim hlut sinn, t.d. með byggðakvóta í gegnum Byggðastofnun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann muni (Forseti hringir.) beita sér fyrir því í nefndinni að einhver slík úrræði verði í gadda slegin.