143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Afkoman í sjávarútvegi er mjög mismunandi eftir því um hvaða greinar sjávarútvegsins er verið að fjalla. (GuðbH: En í heildina?) Afkoman hefur verið mjög góð á síðustu árum, fyrst og fremst vegna þess að við fengum hér nýjan stofn og uppsjávarveiðarnar hafa gengið vel. Þar hefur verið gríðarsterk afkoma og það á sér sínar skýringar.

Ég er ekki að reyna að hafa vit fyrir mönnum og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni með það að við eigum að skapa það umhverfi sem gefur fyrirtækjunum það svigrúm sem leiðir til sem hagkvæmasta reksturs. Ef við erum með ólympískar veiðar höfum við mörg fordæmi þess hvaða afleiðingar það hefur, eins og þegar makríllinn kom fyrst hér á Íslandsmið í einhverju magni. Hvað gerðist þá? Við munum öll eftir þeirri gagnrýnu umræðu, eðlilega, sem þá var á ferðinni, það var verið að sópa þessu upp í bræðslu.

Hvað hefur gerst síðan menn fengu ramma utan um þetta? Verðmætasköpunin hefur margfaldast. Og þetta eru þær leikreglur sem við eigum að setja og þarna er mesti arðurinn fyrir samfélag okkar og fyrir íslensku þjóðina.

Ég er svo aftur alveg sammála því að við þurfum að taka mjög mikið tillit til byggðasjónarmiða í þessu, og annarra félagslegra sjónarmiða, og við erum í dag búin að ná svolítið utan um það hver skerðingin er á aflaheimildum almennt til að mynda þann pott sem við höfum úr að spila í þessu eða 5,3%, held ég að það sé, eða 5,1% af heildaraflaheimildunum. Ég held að mjög jákvætt skref hafi verið stigið þegar uppsjávarstofnarnir voru teknir inn í þetta módel þannig að skerðingin lenti ekki eingöngu á bolfiskfyrirtækjunum, sem voru hér ár eftir ár með yfir 9% skerðingu inn í þessa potta. Nú eru það allir sem leggja til þessarar samfélagslegu ábyrgðar sem við höfum þá til að spila úr gagnvart þeim byggðum sem veikar standa og ég held að allir séu sammála um.