143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kalla það nánast að veitt sé upp í ráðgjöf ef það eru veidd 6.300 tonn af 7 þús. tonna ráðgjöf þannig að (KLM: En …) það svigrúm rúmast alveg innan laga. (KLM: En árið á undan?) Árið á undan? Við vitum alveg hvernig árin á undan voru. Rækjuveiðar lögðust af vegna þess að það borgaði sig ekki að veiða rækjuna, hvorki fyrir fyrirtækin né þjóðina. Það var þjóðhagslega óhagkvæmt að veiða rækju á þessum árum og það var ekki til neins að stunda þessar veiðar. Olíuverðið var uppi og það segir sig sjálft að það var út í bláinn að spreða olíu og koma með verðlausa rækju í land, m.a.s. lítið af henni. Þannig var það.

Svo fóru veiðarnar að aukast og verð á rækju að lagast og þá skapaðist grundvöllur til að hefja veiðarnar aftur. Veiðarnar voru byrjaðar, það var komin ákveðin stígandi í þær þannig að þetta var öllum ljóst. Að halda því fram að þessi ákvörðun hafi leitt til þess að rækjuveiðar byrjuðu upp á nýtt nær engu tali.