143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Haraldur Einarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggða vegi um hálendið. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að hálendisvegir landsins verði bættir og lagfærðir. Gerð verði forkönnun á umhverfisáhrifum og könnuð samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar, m.a. áhrif á ferðaþjónustu, byggðaþróun, öryggi og á tækifæri á norðurslóðum. Ríkisstjórnin skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. október 2014. “

Í greinargerð stendur:

Á undanförnum árum hefur talsvert verið fjallað um möguleika á því að stytta leiðir milli landshluta með bættum hálendisvegum, m.a. með það að markmiði að tengja betur saman fjölmennustu byggðir landsins. Talsverð rannsóknarvinna hefur verið unnin vegna sumra af þeim leiðum sem liggja um hálendið, svo sem um Sprengisand, Fjallabak og Kjöl, og til er mikið af gögnum um þær. Fornir hálendisvegir hafa þó verið í niðurníðslu undanfarin ár og flokkast frekar sem slóðar en vegir. Af þessum sökum verða þeir ófærir fyrr en skyldi og eru auk þess hættulegri en ella. Það er ekki í neinum takti við markmið ferðaþjónustunnar. Lélegir vegir geta valdið skemmdum á bílum, óþægindum ferðafólks og jafnvel slysum.

Skýrslan skal unnin í góðri sátt og samvinnu við hagsmunaaðila.

Uppbyggðir hálendisvegir hafa gríðarleg áhrif á ferðaþjónustu og munu án efa dreifa vaxandi fjölda ferðamanna, jafnt erlendra sem innlendra, betur um landið en nú er. Uppbygging vega mun auka möguleika í ferðaþjónustu en einnig gera landsmönnum kleift að bregðast betur við vaxandi ferðamannastraumi. Þetta rímar vel við markmið ferðaþjónustunnar um verkefnið Ísland allt árið. Það er samstarfsverkefni nokkurra stofnana sem vilja auka dreifingu ferðamanna yfir árið og jafna árstíðabundnar sveiflur í ferðamannastraumi, en mikilvægt er að fjölga gistinóttum yfir vetrartímann. Bættir hálendisvegir eru líklegir til að lengja ferðamannatímabilið á þeim stöðum þar sem aukning ferðamanna er minnst.

Sumarið 2011 fóru 32,2% ferðamanna um hálendið en veturinn eftir aðeins 2,2% samkvæmt mælingum Ferðamálastofu. Með bættum vegum ættu Íslendingar auðveldara með að ferðast um landið og gætu til dæmis elt veðrið milli landshluta. Einnig ættu allir að fá möguleika á að njóta fegurðar hálendisins án þess að þurfa að koma sér upp sérútbúnum tækjum til slíkra ferða. Þar að auki greiða betri vegir fyrir aðgengi fatlaðra að landsvæðum og gera ferðaþjónustunni betur kleift að sinna þeim markhópi.

Betri vegir um hálendið munu ekki einungis auka ferðaþjónustu á einstökum stöðum og styrkja þannig hverja byggð fyrir sig, heldur gæfist með betri hálendisvegum tækifæri til að styrkja landsbyggðina í heild með aukinni samvinnu og samkeppni milli byggðarlaga. Hringvegurinn yrði þá ekki eina greiðfæra leiðin, heldur opnuðust fleiri möguleikar með styttri hringleiðum sem gætu hentað fleirum, bæði einstaklingum og ferðaþjónustuaðilum. Mikil tækifæri felast í hlýnun hafsins á norðurslóðum, t.d. ný fiskimið og opnun siglingaleiða. Íslendingar þurfa að standa framarlega og nýta þau tækifæri sem gefast, hvort sem um er að ræða þjónustu við fraktskip, markaðssetningu vöru og þjónustu, nýja ferðamannastrauma eða annað. Góðar samgöngur um hálendið gætu þar skipt sköpum um hvort markmið um nýtingu tækifæra gætu náðst á réttum tíma.

Einnig er í þessari þingsályktunartillögu tæpt á auknu öryggi uppi á hálendinu og umhverfismálum. Með boðlegu vegakerfi yfir hálendið styttast ýmsar vegalengdir landshorna á milli sem ætti að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Með því að stytta og gera leiðir greiðfærari milli landshluta ykjust möguleikar á raforkuvæðingu bílaflotans. Með betri vegum minnka líkur á slysum, enda eru ökumenn misvel búnir undir að keyra fjallvegi í þeirri breytilegu veðráttu sem er hér á landi. Einnig munu betri samgöngur um hálendið draga úr álagi, viðhaldi og umferð annars staðar í samgöngukerfinu. Lögregla og björgunarsveitir ættu greiðari leið upp á hálendi til að fylgjast með og vakta þá auknu umferð sem hefur verið þar undanfarin ár.

Sömuleiðis mundu hálendisvegir styrkja vegakerfið gagnvart náttúruvá en til dæmis íbúar undir og nálægt Mýrdalsjökli og Vatnajökli eiga ekki margar undankomuleiðir ef skyndilegar náttúruhamfarir yrðu og hringvegurinn lokaðist. Endurbætur á hálendisvegum munu hafa einhver umhverfisáhrif en til þess er að líta að markmiðið er að stýra umferðinni og halda henni á vegum þannig að umferðin valdi sem minnstu raski á náttúrunni og auka öryggi þeirra sem fara um. Einnig er mikilvægt að sem flestir eigi þess kost að upplifa þá einstöku náttúru sem íslenskt hálendi hefur að geyma.

Mikil rannsóknarvinna hefur farið fram af hálfu einkaaðila og Vegagerðarinnar um áhrif bættra samgangna um hálendið. Snertir sú vinna samfélagsleg áhrif og áhrif á mismunandi byggðir en einnig voru gerðar athuganir á kostnaði, umferðarspá og hagkvæmni. Þær rannsóknir sem áður hafa verið gerðar munu nýtast við frekari athuganir og undirbúningsvinnu. Þá hefur Vegagerðin gert úttektir á veðurfari hálendisins með staðsetningu vega í huga. Útlit er fyrir að stuðningur við uppbyggingu hálendisvega sé mikill, sérstaklega sunnan lands og norðan, og fari vaxandi með auknu streymi ferðamanna til landsins.

Þingsályktunartillaga þessi felur í sér markmið um sameiginlega markaðssetningu, lengingu ferðamannatímans, nauðsynlega uppbyggingu innviða og aðra þætti sem mikilvægt er að huga að til að tryggja öruggan, ábyrgan og farsælan vöxt ferðaþjónustunnar ásamt því að styrkja byggðastefnu og auka öryggi samgangna. Nái þingsályktunartillaga þessi fram að ganga og verði reynslan af framkvæmd hennar góð og til farsældar er fyllsta ástæða til að huga að sams konar opinberu átaki á öðrum landsvæðum í framtíðinni.

Ég legg til að málinu verði vísað til síðari umr. og til umhverfis- og samgöngunefndar eftir þessa umræðu.