143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og mér heyrist að við séum sammála um ýmislegt, ég tek undir það. Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og ég tók það sérstaklega fram að ég væri ekki endilega að segja að núverandi ástand væri til fyrirmyndar eða væri gott, það er það ekki. Það er alveg rétt sem hér er sagt að niðurgrafnir vegslóðar skapa sín vandamál og geta boðið upp á þá hættu að menn fari að keyra meðfram þeim í bleytu eða snjó og það er auðvitað ekki það sem við viljum. Ég minni aftur á nýju náttúruverndarlögin og hvernig þeim er ætlað að taka meðal annars á þessum málum vegna þess að menn hafa viðurkennt, og í raun viðurkenna það allir sem til þekkja, að ástandið er ekki gott eins og það er.

Varðandi uppbyggða vegi skiptir auðvitað miklu máli hvað menn eru þá að tala um. Það er til dæmis mikill munur á vegi sem er byggður rétt upp úr yfirborðinu þannig að hann er ekki niðurgrafinn og dregur ekki að sér vatn en liggur í landinu, eins og maður kallar það. Hann er látinn fylgja landslaginu eins mikið og mögulegt er til þess að hann sé sem minnst áberandi. Það er forðast að leggja langa, beina kafla eða láta veginn verða áberandi sjónrænt séð, t.d. fyrir þá sem eru á ferð gangandi eða ríðandi annars staðar á því svæði eða séð úr lofti eða hvað það nú er. Það er alveg rétt að þessir vegir hafa margir verið sveltir og meira að segja viðhald á þeim í svo miklu lágmarki að það er varla vansalaust. Þeir eru kannski heflaðir einu sinni eða tvisvar á ári sumir hverjir og er ósköp lítið til að hefla nema grjót og sandur þannig að erfitt er að gera gott úr því, en vissulega má ræða hvernig hægt er að bæta úr því ástandi. Eins og ég nefndi hef ég velt því fyrir mér hvort það væri einhver tímabundin lausn í þessu og menn sættust á að Kjalvegur yrði lagaður, helst vildi ég þá sjá það með þeim formerkjum sem ég hef talið upp, ef menn létu þá aðrar stórkarlalegri hugmyndir bíða.

Það sem ég óttast er að hugmyndirnar um hálendisvegina eru mjög mismunandi. Þær eru kannski allt frá því sem við erum að ræða hér og yfir í hugmyndir manna um (Forseti hringir.) fulluppbyggða þjóðvegi með heilsársþjónustu sem stytta flutninga á akstursleiðum milli landshluta, sem er í raun og veru allt annað mál.