143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[16:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf svo sem litlu við þetta að bæta. Ég tek undir það sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefnir og ítreka það sem ég hef áður sagt og hvet þingheim til þess að hugleiða þetta gaumgæfilega vegna þess að ég veit að það hefur ekki verið auðvelt í gegnum tíðina að ná einhverjum samhljómi eða samstöðu um að vinna með öðrum hætti með sýslumannsembættin og lögregluembættin í héraði. Ég held hins vegar að við séum komin á þann stað.

Ef við rýnum stöðu sýslumannsembættanna sem munu auðvitað taka til sín fleiri verkefni þá ná þau ekki að sinna öflugri og stærri verkefnum og vera stærri gerendur í samfélögum en þau eru nema þau hafi til þess burði. Til að hafa til þess burði verða þau að vera stærri og öflugri. Það þýðir ekki að við getum ekki haft þjónustumiðstöðvar eða þjónustuútibú á þeim svæðum sem talið er nauðsynlegt að þau séu staðsett á, en það þýðir að við verðum að gefa þessum embættum tækifæri til þess að geta ráðið við þau verkefni sem við felum þeim. Það gerum við með því að vinna öðruvísi að málunum en við höfum gert og þess vegna held ég og ítreka að eitt stærsta byggðamálið í dag sé að efla og stækka sýslumannsembættin og lögregluembættin.

Eins og er nefnt í títtnefndri hagræðingarskýrslu er talað um að tryggja að í héraði verði ákveðin þjónustustofnun er tengist réttindum borgaranna. Sýslumenn eru einmitt skipaðir til þess að gegna því embætti.