143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[16:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fegin því að staðfest sé að þessum nýju verkefnum Útlendingastofnunar eigi að fylgja fjármagn og þá mannskapur um leið. Ég fagna líka viðhorfi hæstv. ráðherra varðandi starfsemi Útlendingastofnunar og þau lög og þær reglur sem gilda um þau vandasömu mál sem sú stofnun fæst við. Ég hlakka til að fram komi tillögur og hugmyndir um það hvernig breyta megi þeim reglum og lögum sem um þessi mál gilda og einnig því viðhorfi sem hæstv. ráðherra nefnir hér, þ.e. að við lítum á komu útlendinga sem vilja setjast hér að frekar sem tækifæri en ógn. Ég fagna sérstaklega því viðhorfi hæstv. ráðherra.