143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

kosning nýrra stjórna ríkisfyrirtækja.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að hér er verið að starfa innan ramma laganna. Það er ekki óeðlilegt og ekki ólöglegt heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að hægt sé að kalla saman hluthafafundi í þessum félögum eins og öðrum.

Það sem mér finnst ástæða til að gera athugasemd við er ekki það þegar meirihlutaskipti verða og ný ríkisstjórn er mynduð og menn kalla til slíkra funda heldur frekar hitt, þegar menn rétt áður en kosið er, rétt áður en þeir fara frá völdum, gera ráðstafanir í þessum efnum. Það gerðist einmitt hjá síðustu ríkisstjórn, dæmi voru um slíkar ráðstafanir án þess að komið væri að aðalfundi. Þannig var til dæmis haldinn fundur í stjórn Hörpu án þess að það væri aðalfundur, haldinn var sérstakur fundur til að koma ákveðnum stjórnarmönnum út og öðrum inn. Þetta gerðist (Gripið fram í.) nokkrum dögum fyrir kosningar. (KJak: … breytingar.) Þá var skipt um stjórnir í hlutafélögum. Þetta er bara staðreynd, þetta liggur allt fyrir. (Forseti hringir.) Mér finnst frekar ástæða til að gera athugasemdir við slíkar breytingar þegar menn eru að fara frá völdum en að menn (Forseti hringir.) geri breytingar þegar þeir eru nýteknir við.