143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

fjármunir til þjónustu við fatlað fólk.

[15:17]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 um þjónustu við fatlað fólk kemur fram að ýmislegu sé ábótavant við skipulag og stjórnun málaflokksins. Tekið er fram hvað varðar útbýtingu og meðferð fjármuna að fjárveitingar til þjónustunnar taki ekki mið af reglubundnu mati á þjónustuþörf og að kostnaður sé ekki bókfærður með sambærilegum hætti hjá öllum þjónustuaðilum sem meðal annars hamli raunhæfum samanburði á einstökum útgjaldaliðum málaflokksins.

Síðan þá hefur málaflokkurinn verið færður frá ríki til sveitarfélaga. Reynslan hefur sýnt að mögulega af þessum ástæðum hafi málaflokkurinn verið færður bæði sveltur og óskilgreindur til sveitarfélaganna. Er það mín reynsla af að starfa í málaflokknum að það hafi stuðlað að núningi milli ríkis og sveitarfélaga um fjármagn sem hefur bitnað á lífi fatlaðs fólks og framþróun í málaflokknum. Í ljósi yfirfærslunnar og endurskoðunar á lögum um málefni fatlaðs fólks var samþykkt þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks frá 2012–2014 en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk njóti góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda sem eiga að stuðla að jöfnuði, svo sem á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.

Stefna í málefnum fatlaðs fólks taki mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

Þetta eru fögur fyrirheit en samræmast ekki þeim veruleika sem margt fatlað fólk virðist búa við og birtist í fátækt og félagslegri einangrun, takmörkunum á húsnæðismöguleikum og letjandi almannatryggingakerfi. Einnig í takmarkaðri þjónustu sem er ýmist takmörkuð eða í aðgreindum úrræðum sem dregur úr þátttöku og virkni fatlaðs fólks. Með þessum hætti er ekki verið að nýta þann mannauð sem býr í hópnum, nýta þann efnahagslega ávinning sem felst í því að fjárfesta í mannréttindum hópsins.

Í ljósi áherslu ríkisstjórnarinnar að skoða hvernig hægt sé að útbýta fjármunum á sem hagkvæmastan hátt og tryggja um leið góða þjónustu, eins og kemur fram í tillögum hagræðingarhópsins, vil ég spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort það gildi ekki örugglega líka í málaflokki fatlaðs fólks. Það hefur ekki endilega alltaf gert það. Jafnframt vil ég spyrja með hvaða hætti hann muni beita sér fyrir því að fjárhagsleg stefnumótun sé skilgreind skýrt og grundvallist á áðurnefndum mannréttindasamningi svo fatlað fólk þurfi ekki að líða fyrir þann ágreining sem á sér stað milli ríkis og sveitarfélaga.