143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

makrílkvóti á uppboðsmarkað.

[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða umræðu og spurningu um nákvæmlega það sem verið hefur til umræðu í þessum sal og í samfélaginu í dálítið langan tíma og varð meðal annars kveikjan að því að settur var á laggirnar samráðshópur í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar sem skilaði af sér í september 2010. Eftir að hafa skoðað mismunandi leiðir, þar á meðal uppboðsleiðina, sem hv. þingmaður vísar til, komust menn að því að sú leið yrði ekki farin heldur ákveðin samningaleið og í stað þess að greiða fyrir heimildir til að veiða í eitt skipti á uppboði þá yrði greitt fyrir þær með árlegum leigugjöldum til tiltekins tíma. Það varð niðurstaða þessa samráðshóps og síðan hefur núverandi ríkisstjórn tekið þetta upp í stjórnarsáttmála sinn og samkvæmt því er verið að vinna.

Nefndin lagði til að grundvöllur fiskveiðistjórnar yrði áfram aflahlutdeildarkerfið með innleiðingu samningsleiðar og árlegrar greiðslu fyrir leiguna á heimildunum. Það er alveg rétt að aðrar leiðir koma til greina en það verður að segjast eins og er að hefði raunverulegur vilji verið til að fara aðrar leiðir þá voru tækifærin til staðar á síðasta kjörtímabili. En það hefur verið ljóst í allnokkurn tíma að æskilegt er að koma á framtíðarskipulagi á stýringu makrílstofnsins. Það var hins vegar ekki gert á síðustu fjórum árum en stendur til að gera núna. Það er á grundvelli þess sem ég hef lýst því yfir að við séum að skoða það í ráðuneytinu að hlutdeildarsetja makrílstofninn með sama hætti og við nýtum aðra stofna og á grundvelli þessarar niðurstöðu samráðshópsins og samningaleiðarinnar.