143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

tengivegir og einbreiðar brýr.

154. mál
[15:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál til umræðu og hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin. Það er mikilvægt að auka eftir því sem kostur er viðhald á vegunum og að mörgu leyti hentugra að nýta slík smærri verkefni til að nota þann slaka sem enn er í hagkerfinu og okkar ágæta atvinnulífi.

Ég vil nota tækifærið og fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að hann leiti leiða til að fjármagna með öðrum hætti nýframkvæmdir vegna þess að takist honum að finna slíkar leiðir er það auðvitað vísasti vegurinn til að skapa svigrúm í fjárlögunum til að setja meiri fjármuni í viðhaldsverkefnin. Auðvitað reynir ekki síst á það hjá þingmönnum stjórnarliðsins að styðja ráðherrann í því þegar þessi þingmál, bæði samgönguáætlunin og fjárlögin, koma hér til afgreiðslu að fá þá fjármuni til þessara verkefna sem nauðsynlegt er. Ekki síst á það við um einbreiðar brýr sem við vitum öll að eru enn allt of stór ógn við öryggi borgaranna á vegunum.