143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

tengivegir og einbreiðar brýr.

154. mál
[15:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður hefði hugsanlega mátt beina sömu frómu óskum til hæstv. innanríkisráðherra. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra mundi skýra betur fyrir okkur hverjar eru þær nýju leiðir sem hún vill hugsanlega skoða til að auka viðhald á tengivegum, ekki síst til þess að fækka einbreiðum brúm. Ég held að það sé um það bil það þjóðhagslega arðsamasta sem hægt er að gera, þ.e. að ráðast í slíkar framkvæmdir. Ég held að það liggi fyrir skýrslur um það.

Ég fagna því auðvitað að hæstv. ráðherra brosir út í annað gagnvart hv. fyrirspyrjanda en samt er það svo að hún ætlar ekki að gera meira en bara að vísa þessu til samgönguráðs og hún ætlar að koma ábendingum hæstv. fyrirspyrjanda þangað — en hvaða skoðun hefur hún á þessu sjálf? Er hæstv. innanríkisráðherra reiðubúin að segja að hún muni beita sér fyrir því að ráðist verði í að fækka einbreiðum brúm?