143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að vissulega vildi sá sem hér stendur og er starfandi umhverfisráðherra hafa úr mun meiri peningum að spila til að sinna bæði umhverfisvernd, náttúruvernd og grundvallarumhverfismálum, fráveitumálum sem setið hafa á hakanum í mörg ár vegna þess að menn hafa verið að sinna einhverjum öðrum verkefnum.

Nú er það líka svo að í gildi eru náttúruverndarlög, þau verða í gildi áfram. Og það er jafnframt þannig að hér er búið að lýsa því yfir að strax verði hafin endurskoðun við gerð nýrra laga sem byggir m.a. á þeirri vinnu sem búið er vinna á undanförnum árum við gerð þeirra laga sem ég legg til að þingið felli út vegna ýmissa galla sem á þeim eru. Ég vænti góðs samstarfs við þingið um þá miklu og góðu vinnu sem fram undan er.