143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að staldra enn frekar við þau atriði sem hafa komið fram í orðaskiptum hv. þm. Helga Hjörvars og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þ.e. um það frumvarp sem hér er lagt fram í víðara pólitísku samhengi. Hér er um að ræða ákveðnar pólitískar meginlínur og sjónarmið sem togast á og ákveðna atvinnustefnu sem er yfir og allt um kring hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég vil þess vegna biðja hv. þingmann að bregðast aðeins við því með skýrari hætti hver ástæðan sé að baki þessari leið sem er leið offorsins. Það er ekki farin sú leið að reyna að fara rólega um og meira að segja í nafni sáttar er stigið skref kúvendinganálgunar. Það er umhugsunarefni.

Í því samhengi langar mig að nefna umhugsunarvert atriði sem er sú staðreynd að ein meginniðurstaða skýrslu Vegagerðar ríkisins um áhrif 37. gr. náttúruverndarlaga frá 1999 á framkvæmdir, er í megindráttum sú að 37. gr. laganna, um sérstaka vernd, hefur lítil áhrif, hefur engin raunveruleg áhrif til verndar. Þannig að náttúran er í raun og veru óvarin í lögunum frá 1999 þegar við ræðum um sérstök náttúrufyrirbæri. Þegar við stígum aftur til baka til ársins 1999 erum við í raun og veru að stíga til baka í bitlaus lög hvað þetta varðar. Mig langar að biðja hv. þingmann að reifa afstöðu sína til þessa.