143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það var þrennt sem mig langaði að nefna í þessu stutta andsvari. Í fyrsta lagi ágæt líking hv. þingmanns við almenn hegningarlög. Því skaut upp í huga mér að kannski mundi sá hæstv. ráðherra sem fer með samgöngumál leggja fram nýtt umferðarlagafrumvarp sem ekki mundi einkennast af boðum og bönnum. Þá værum við líklega farin að tala um mjög spennandi frumvarpssmíð, því að það eru vissulega sumir málaflokkar sem kalla bara á ákveðin boð og bönn, ákveðið regluverk ef við viljum sinna þeim almennilega.

Ég var með tvær spurningar. Í fyrsta lagi tók hv. þingmaður þátt í þeirri vinnu sem fór fram í þinginu við gerð laganna sem taka eiga gildi í apríl. Mig langaði að inna hv. þingmann eftir því hvort hans mat, en hann hefur tekið þátt í mörgum umræðum hér á þingi og ýmsum þingmálum, væri að komið hefði verið til móts að miklu leyti, kannski ekki öllu leyti, við þær athugasemdir sem komu fram við frumvarpið í vinnu hv. þingnefndar á síðasta þingi. Það er auðvitað mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða breytingum frumvarpið tók í meðförum þingsins, hvaða athugasemdir var komið til móts við og hvort þessi ráðstöfun að fella niður lögin sé í raun nauðsynleg.

Hitt sem mig langar að inna hv. þingmann eftir og ég hef spurt aðra hv. þingmenn um líka er hvernig hann sér fyrir sér framhald málsins í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hv. þingmaður situr. Hvort hann sjái fyrir sér að þar verði farið í nokkuð ítarlega vinnu við kortlagningu á því sem vilji er til að breyta þannig að nefndin geti tekið upplýsta afstöðu til málsins.