143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að ég geri engar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Ég ætla bara að koma því að að ég tel að hér hafi farið fram málefnaleg umræða og mælendaskrá sé opin fyrir alla til að skrá sig á. Hér hafa menn verið virkir í þingsal bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, ekki síður stjórnarliðar, hlustað á þær ræður sem hafa verið haldnar, tekið þátt í umræðum og verið í þingsalnum.

Mér finnst það ómaklegt þegar menn hverfa úr salnum að hlaupa hingað upp í ræðustól og segja að þeir séu ekki staddir í húsinu þegar þeir hafa verið undir allri umræðunni. Ég held að það komi umræðunni ekki neitt sérstaklega á málefnalegri braut.

Ítrekað hefur verið kvartað yfir því að menn séu ekki í þingsal. Ég gat ekki betur séð en hér hefðu verið fjölmargir ráðherrar í óundirbúnum fyrirspurnum í dag, þar á meðal hæstv. iðnaðarráðherra sem hefði (Gripið fram í: … þetta mál.) gjarnan viljað fá að svara þeim spurningum sem þingmenn sem hér voru (Forseti hringir.) hefðu getað spurt eins og oft áður og verða örugglega án efa fleiri tækifæri til þess.