143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Það er gagnlegt og alveg tilefni til að ræða þetta mál hér. Þetta voru auðvitað dramatískir atburðir, hinn mikli síldardauði í fyrravetur. Þótt að einhverju leyti séu sambærilegir atburðir þekktir í smáum stíl bæði hér við land og annars staðar höfum við ekki staðið frammi fyrir svona ósköpum áður.

Það sem kemur við sögu vekur auðvitað upp spurningar um m.a. þverun Kolgrafafjarðar. Ég held að það sé ástæða til að setja af stað verkefni þar sem sú þverun og aðrar sambærilegar verði rannsakaðar. Við höfum kannski ekki alltaf gert okkur grein fyrir hvaða aðstæður verða til með því að þvera firði og skilja eftir innfirði með takmörkuðum vatnsskiptum. Þetta hefur verið gert á nokkrum stöðum á landinu nú þegar, til viðbótar Kolgrafafirði má nefna Gilsfjörð, Dýrafjörð og fleiri, og jafnvel eru áform uppi um að gera slíkt hið sama í samgöngumálum víðar.

Margt bendir til þess að það að velja hálflokun á fjörðum við slíkar aðstæður sé versti kosturinn, þ.e. annaðhvort eiga menn að kosta því til sem þarf til að tryggja fullnægjandi vatnsskipti og eðlilega strauma eða velja hinn kostinn sé hann skárri og loka bara viðkomandi fjörðum í miklu ríkari mæli og breyta þeim nánast í stöðuvötn.

Varðandi tjónið — mönnum blöskrar skiljanlega að horfa upp á 50 eða 55 þús. tonn af síld drepast og verða til stórkostlegra vandræða fyrir utan áhrifin á stofninn — þá verða menn að fara aðeins varlega í að setjast bara niður og reikna það út sem aflaverðmæti í unnum afurðum. Það er auðvitað ekki sama lifandi stofn í hafinu og unnin vara á landi, fyrir utan að ekki er einfalt við því að bregðast. Ætla menn þá að veiða meira af síldinni fyrir fram til þess að draga úr líkunum á því að eitthvað af henni drepist? Er ekki erfitt að ákveða og velja út þær 50 þúsund lestir sem mundu fara þarna inn og hugsanlega drepast og veiða þær sérstaklega en skilja hinar eftir? Svo kemur að því að ef svona stóratburðir í náttúrunni höggva umtalsvert skarð í stofninn þá er eiginlega niðurstaðan af því hið gagnstæða, það gæti þýtt að draga þyrfti úr veiðum til að vernda stofninn og byggja hann upp.

Hitt er allt annað mál að ef síld gengi aftur inn á Kolgrafafjörð og settist þar að og menn mætu aðstæðurnar krítískar þá gæti verið allt annað sjónarmið uppi eins og að reyna að veiða eitthvað af því magni sem þar væri komið inn. Annars virðist síldin að einhverju leyti vera búin að fá nóg af Breiðafirðinum í bili, hún er kannski bara að taka til sinna ráða sjálf samanber hve erfiðlega gengur að finna hana í miklu magni inni á Breiðafirðinum núna.

Hvaða ráð eru til í stöðunni? Hæstv. ráðherra las upp fróðlegan lista um ýmsar mögulegar aðgerðir, umfangsmiklar og kostnaðarsamar og aðrar minna. Ég tel að það sé skynsamlegt að útiloka enga möguleika og kortleggja þá, en það verður auðvitað alltaf að hafa í huga að ekki er víst að það verði hægur leikur að bregðast við náttúrulegum atburðum af þessu tagi á einhvern skynsamlegan hátt. Ég held að rannsóknir og þekking séu alltaf sterkasta vopnið í aðstæðum sem þessum. Það var mat okkar í fyrri ríkisstjórn að um ekkert annað væri að ræða en að stórefla þarna vöktun og rannsóknir sem var sett af stað og heldur síðan áfram og það held ég að sé skynsamlegt.

Ég er því sammála hæstv. ráðherra um að jafnvel þó að það kunni að skapast þrýstingur á að menn verði að gera eitthvað, eins og stundum er sagt og allir fara á taugum yfir ástandi af þessu tagi, þá mega menn heldur ekki missa sig í að rjúka út í eitthvað sem ekki er vel ígrundað. En að fylgjast vel með þessu, rannsaka það og reyna að læra af því og þar á meðal og ekki síst hvort við séum kannski í einhverjum tilvikum beinlínis að búa til viðsjárverðar aðstæður þegar við grípum inn í vatnsbúskap fjarða af þessu tagi. En að sjálfsögðu getur síldin ákveðið að hafa vetursetu annars staðar og það er þekkt. Þessi síld okkar, sumargotssíldin, hefur verið býsna víðförul og eru frægar dvalir hennar inni á Hvalfirði og víðar.

Góðu fréttirnar eru auðvitað að stofninn hefur verið að styrkjast og unga síldin heldur sig fyrir austan og virðist vera minna sýkt. Ég er í þeim hópi sem á sér þann draum að við eignumst á komandi árum ekki bara myndarlegan sumargotssíldarstofn heldur líka vorgotssíldina sem einu sinni var veidd og dvaldi við Surtsey og sumir kenna Surtseyjargosinu um að hafi endanlega horfið.

Ég þakka fyrir skýrsluna.