143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

nauðungarsölur og dómur Evrópudómstólsins.

[15:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ekki má hindra neytandann í að leita réttar síns um réttmæti samningsskilmála áður en fullnustu lýkur, áður en nauðungarsala fer fram. Í íslenskum lánasamningum er kveðið á um, flestum þeirra, staðlað að það megi fara fram á nauðungarsölur áður en dómstólar taka af allan vafa um lánasamningana.

Evrópudómstóllinn dæmdi fyrr á árinu að þetta mætti ekki og byggir að stærstum hluta á tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Í þeirri tilskipun frá 1993, sem átti að innleiða í síðasta lagi 1994 á Íslandi, segir að hún hafi verið innleidd að hluta og í íslenskum lögum veitir hún hæstv. innanríkisráðherra verkfæri og ábyrgð um að vernda neytendur sem frá árinu 2001 hafa tekið neytendalán, húsnæðislán.

Hvað segir ábyrgðin, hver er hún í tilskipun ráðsins? Það er á ábyrgð aðildarríkjanna að tryggja að í samningunum sem gerðir eru við neytendur séu ekki óréttmætir skilmálar. Aðildarríkin skulu tryggja að óréttmæta skilmála sé ekki að finna í samningum sem seljandi eða veitandi gerir við neytendur og ef slíka skilmála er að finna þrátt fyrir allt eru þeir ekki bindandi fyrir neytendur og samningur verði áfram bindandi fyrir samningsaðila með þeim skilmálum sem um hann getur gilt áfram án hinna óréttmætu ákvæða. Ákvæði um að fara megi í nauðungarsölur áður en dómstólar fjalla um efnið er óréttmætt og kemur fram í þessum samningsskilmálum. Hvaða verkfæri hefur innanríkisráðherra hvað þetta varðar?

Tvö verkfæri hafa verið innleidd fyrir innanríkisráðherra, annars vegar lög frá 2001 um að innanríkisráðherra geti sett á lögbann eða höfðað dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Ætlar innanríkisráðherra að gera slíkt? (Forseti hringir.) Svo hitt: Það kveður á um í lögum sem hafa verið innleidd, lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að ráðherra er heimilt á grundvelli (Forseti hringir.) EES-tilskipunar þessarar um ósanngjarna samningsskilmála að kveða nánar á með reglugerð um framkvæmd ákvæða laga þessara um ósanngjarna samningsstöðu. Hefur ráðherra gert þetta? (Forseti hringir.) Mun ráðherra gera þetta?

(Forseti (KLM): Forseti minnir hv. þingmenn á að gæta að ræðutíma sem allir hafa hér tilskilinn.)