143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Róbert Marshall þetta andsvar sem og málefnalega umræðu í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég veit að hv. þingmaður er einlægur áhugamaður um ferðir á hálendinu og að það sé mikilvægt að fólk eigi þess kost að nýta það. Ég deili áhyggjum hans af skorti á opinberum kortum því að ég þekki það, ég hef setið í sveitarstjórn þar sem það uppgötvaðist að nýir aðilar fóru að keyra leiðir sem voru vissulega á útgefnum kortum. Þó að þeir væru teknir af lögreglu eða þar til bærum aðilum gátu þeir bent á að kort hefðu verið gefin út. Þau kort voru hins vegar ekki hluti af skipulagsáætlun viðkomandi sveitarfélags og voru í fullkominni andstöðu við stefnu sveitarfélagsins um hvar ætti að fara og hvernig það ætti að gerast.

Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin séu einmitt lykilþátttakendur í þessu og slík vinna hefur m.a. farið fram á því svæði sem ég kem frá, uppsveitum Árnessýslu, þar sem menn höfðu miklar áhyggjur af nákvæmlega þessu atriði. Þannig að ég held enn að það sé tækifæri til þess að setjast yfir þetta mál og reyna að finna lausnir og flýta þá þeim úrlausnarefnum sem blasa við til þess að tryggja að við getum farið að gera eitthvað í þessu.

Vandinn verður samt alltaf sá að einhvern veginn þarf að auka eftirlit á þessu svæði og það sé lögreglan eða einhverjir sambærilegir slíkir aðilar sem það geti gert. Eins og kom fram í umræðunni m.a. hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fannst henni heldur óviðurkvæmilegt ef hún ætti að fara að segja til nágranna síns. Auk þess er ég ekki viss um að það dygði til sönnunar að menn tækju myndir af þessu á síma sinn, ég veit það ekki. Þetta er að minnsta kosti verkefni sem við þurfum að skoða og það er kannski eitt af þeim brýnustu verkefnum sem varða hálendið sem við þurfum að sinna, að stöðva utanvegaaksturinn.