143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

176. mál
[21:12]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning, ég þakka fyrir hana.

Hér er ekki verið að setja á einhverjar kvaðir um að fyrirtæki eða stofnanir verði að fá sér jafnlaunavottun heldur er það valfrjálst. Lögð er áhersla á að fyrirtæki eða stofnanir geti fengið þessa vottun óháð stærð fyrirtækja. Við þurfum þá að horfa til þátta eins og aukinnar áherslu á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stofnana, raunar allra rekstrarforma, og hluti af því er að tryggja að við mismunum ekki á grundvelli kyns þegar kemur að launum.

Í velferðarráðuneytinu hef ég einmitt lagt mikla áherslu á að við sem vinnum að jafnréttismálum séum ákveðin fyrirmynd hvað þetta mál varðar. Við þekkjum öll að það er ekki einfalt að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum, það getur oft reynst mjög flókið. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að þegar við verðum komin á þann stað að hægt sé að hefja vottunarferlið verði velferðarráðuneytið með þeim fyrstu sem fara í gegnum þá vottun. Með þeim hætti sendum við út þau skilaboð að það sé eitthvað sem skiptir máli.

Þetta er líka nokkuð sem ég mundi telja að fyrirtæki vildu gera sem leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð. Ég tel að þetta geti líka haft áhrif á val manna á vinnustað, hvort þeir vilja vinna hjá fyrirtæki sem er tilbúið að fara í gegnum þetta ferli eða ekki. Það hefur sýnt sig ítrekað að fyrirtæki sem eru með tiltölulega jafnt hlutfall karla og kvenna eru þau fyrirtæki sem hafa náð betri árangri. Að sjálfsögðu virkar þetta líka þannig að þeir sem vilja tryggja jafnrétti starfsmanna sinna mundu vilja fá jafnlaunavottun í fyrirtækinu eða stofnuninni.