143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

niðurskurður fjárveitinga til RÚV.

[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Núverandi stjórn Ríkisútvarpsins er jafn pólitísk eða ópólitísk og sú síðasta. Eini munurinn er sá að fleiri sitja í þessari stjórn en sátu í þeirri sem var á undan.

Hvað varðar stefnuna er auðvitað fram undan að gera nýjan þjónustusamning við stofnunina. Sá samningur þarf að taka mið af fjárhagslegri stöðu Ríkisútvarpsins. Ég held að það hljóti að vera mjög góð sátt um að eitt mikilvægasta verkefni ríkissjónvarpsins sé að sinna því sem aðrar útvarpsstöðvar, einkareknar útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar, eiga bágt með að sinna. Það er þess vegna sem við tökum peninga úr ríkissjóði og setjum í þetta verkefni, af því að við erum sammála um að slíka þjónustu þurfi, að búa þurfi til slíkt efni þannig að aðgengi sé að því.

Hæstv. forseti. Það breytir ekki stöðunni sem við stöndum frammi fyrir í ríkisfjármálum. Við getum ekkert vikist undan þeirri stöðu og það þarf að grípa til allra mögulegra ráða til þess að ráða við þann vanda. Það má ljóst vera að það þýðir að taka þarf erfiðar ákvarðanir og þetta er ein af þeim sem blasti við okkur.

Hvað varðar stefnumótun almennt um Ríkisútvarpið er ég þeirrar skoðunar, eins og ég sagði hér áðan — og reyndar vitnaði hv. þm. Svandís Svavarsdóttir til ummæla minna á opinberum vettvangi — að það sé einmitt á sviði menningar, lista, sögu þessarar þjóðar, vísinda og þjóðfélagsumræðu almennt sem máli skiptir að Ríkisútvarpið sé með starfsemi og sinni þjónustu. Það er ekki þar með sagt, virðulegi forseti, að sjálfstætt reknar sjónvarps- og útvarpsstöðvar geti ekki sinnt slíkum verkefnum eða hafi ekki metnað til. Fjölmörg dæmi eru um að einkareknar stöðvar hafi af miklum myndarbrag sinnt akkúrat þeim verkefnum. Ég er þeirrar skoðunar að í raun og veru sé heilmikill markaður fyrir efni sem snýr að þeim þáttum sem ég hef lagt hér fram. Öllu skiptir hvernig það er matreitt, af því að það er áhugi á menningu, það er áhugi á sögu (Forseti hringir.) og listum þessarar þjóðar þannig að það eru heilmikil sóknarfæri.