143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

niðurskurður í framhaldsskólum í Hafnarfirði.

[15:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Mergur málsins er sá að þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í haust bar það til tíðinda að tekin var ákvörðun um að ekki yrði haldið áfram að skera niður til rekstrar framhaldsskólastigsins. Með öðrum orðum, sama fjárhæð og rann til þessa skólastigs til reksturs þess á síðasta ári var lögð til núna fyrir næsta ár, verðbætt. Það er því rangt sem hér er haldið fram að um sé að ræða niðurskurð til framhaldsskólanna með þessum hætti, þ.e. til rekstrar liðarins. Það er vissulega rétt að dregið var úr fjármunum til liða eins og t.d. Nám er vinnandi vegur. En fyrir því voru málefnaleg rök og ég hef rakið þau hér úr ræðustól Alþingis.

Hvað varðar einstakar skólastofnanir geta fjárframlög til þeirra auðvitað breyst með breyttum nemendafjölda eða breyttri samsetningu nemendahópsins. Það hefur að gera með t.d. hvert námsframboðið er en líka hversu margir nemendur koma inn í skólana. Aðalatriðið er að heildarfjármunir til reksturs framhaldsskólastigsins eru þeir sömu og síðast, verðbættir.

Nei, virðulegi forseti. Ég hef ekki átt samtöl við skólastjórnendur hvað það mál varðar sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Það er auðvitað á þeirra ábyrgð að stýra skólanum, taka ákvörðun um námsframboðið og laga reksturinn að þeim fjárheimildum sem skólinn hefur. Það er lykilatriðið.

Hvað varðar skólastefnuna almennt hef ég einnig greint frá því að fram undan er að ég mun birta hvítbók um úrbætur í menntamálum sem snúa að framhaldsskólanum og eins að ákveðnum þáttum í starfi grunnskólanna. Þessi hvítbók mun líta dagsins ljós hið fyrsta.