143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

verðbréfaviðskipti og kauphallir.

189. mál
[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir. Frumvarp þetta byggir annars vegar á athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við innleiðingu á MIFID-tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/39/EB og hins vegar á ábendingum, einkum frá Fjármálaeftirlitinu, um annmarka á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem skapast hefur við beitingu laganna.

Frumvarpið hefur ekki í för með sér veigamiklar breytingar á núgildandi lögum. Með frumvarpinu er MIFID-tilskipun innleidd með fullnægjandi hætti í íslenskan landsrétt og löggjöf á sviði verðbréfaviðskipta lagfærð lítillega, einkum er lýtur að framkvæmd eftirlitsstarfsemi og gagnsæi viðskipta.

Meginbreytingar frumvarpsins eru eftirfarandi:

Nýtt ákvæði kemur inn í II. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, er fjallar um skyldur fjármálafyrirtækja á skipulegum verðbréfamarkaði við framkvæmd viðskiptafyrirmæla.

Kveðið er á um, með skýrari hætti, að flokkun viðskiptavina í almennan fjárfesti eða fagfjárfesti skuli eiga sér stað við upphaf viðskiptasambands.

Í tilkynningu um viðskipti með fjármálagerninga er gerður áskilnaður um að koma skuli fram auðkenni viðskiptamanns, uppgefið með einkvæmu auðkenni, þ.e. kennitölu.

Loks kemur nýtt ákvæði inn í lög um kauphallir, nr. 110/2007, sem fjallar um réttindi skipulegra verðbréfamarkaða til að gera ráðstafanir innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna miðlægs mótaðila. Markmið þeirra breytinga er lúta að gagnsæi viðskipta og flokkun fjárfesta er að auka fjárfestavernd og efla eftirlit með verðbréfaviðskiptum. Á vinnslustigi frumvarpsins var samráð haft við Fjármálaeftirlitið en um einstaka ákvæði var leitað ráðgjafar Seðlabankans og NASDAQ OMX, Kauphallarinnar.

Lagt er til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.