143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég er sérstakur áhugamaður um að hinar gagnmerku tillögur eða efnistillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar falli ekki í gleymsku og dá. Mér finnst fullmikið hafa dofnað yfir umfjöllun um það mál. Nú hefur fjáraukalagafrumvarp bæst við áður fram komið fjárlagafrumvarp þannig að ekki er úr vegi að spyrja hvernig ýmislegt þar rímar við vinnu og tillögur hagræðingarhópsins.

Það vakti athygli mína á sínum tíma að hagræðingarhópurinn fjallaði lítið um hagræðingu hjá ríkisstjórn eða æðstu embættum í landinu en þeim mun meira um ýmislegt annað og var reyndar fátt mannlegt óviðkomandi ef út í það er farið. Í fjáraukalagafrumvarpi eru lagðar til auknar fjárveitingar, t.d. til embættis forseta Íslands, og mikið svigrúm í fjárveitingum til forsætisráðuneytisins á sama tíma og í fjáraukalagafrumvarpinu eru skorin harkalega niður á þessu ári framlög til rannsóknarstarfsemi, nýsköpunar og fjárfestingar í innviðum. Þess vegna væri mjög fróðlegt að fá yfirferð á því frá talsmönnum hagræðingarhópsins og það staðfest eða eftir atvikum því mótmælt að þetta væri stefnan. Hún virðist vera að birtast smátt og smátt, bæði í því sem hagræðingarhópurinn sleppti að tala um og síðan í tillögum í fjárlagafrumvarpi og núna fjáraukalagafrumvarpi. Áherslan er á niðurskurð, ekki síst þarna, niðurskurð á rannsóknarstarfsemi, nýsköpunarstarfsemi og uppbyggingu og fjárfestingu innviða landsins.

Hins vegar er laus taumurinn þegar kemur að því að gefa á jötuna hjá embætti forseta Íslands og í forsætisráðuneytinu.