143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:31]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ágæta ræðu. Ég er mjög sammála mörgu sem kom fram í ræðu hennar og hef endanlega sannfærst um að hún þurfi hugsanlega að endurskoða í hvaða flokki hún á að vera.

Í fjárlögum ársins 2013 var áætlað að 3,7 milljarða kr. halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu. Nú er ljóst að hann verður margfalt meiri. Þetta tap leggst ofan á tap fyrri ára. Það þýðir á mannamáli að við eyðum mun meira en við öflum. Öll venjuleg heimili og fyrirtæki yrðu gjaldþrota með slíkri fjármálastefnu. Það sama gildir um ríkið, það stefnir einfaldlega í þrot ef ekkert verður að gert. Ný ríkisstjórn verður því að stíga á bremsurnar á sama tíma og staðinn verður vörður um ákveðin grunngildi, þar á meðal heilbrigðismál þar sem menn hafa gengið allt of langt í niðurskurði á síðustu árum.

Segja má að breytingarnar á afkomu ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga þessa árs stafi aðallega af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum vegna minni hagvaxtar en vænst var. Nú er áætlað að vanti um 24 milljarða kr. upp á að tekjuhlið frumvarpsins standist. Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn til hækkunar í frumvarpinu er áformað 4,5 milljarða kr. rekstrarframlag til Íbúðalánasjóðs vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins. Staða sjóðsins er þannig að óhjákvæmilegt er að finna framtíðarlausn á vandamálum hans. Það gengur ekki lengur að ríkið þurfi að dæla tugum milljarða kr. í hann til að halda honum gangandi. Það er brýnt að finna lausn á því vandamáli sem sjóðurinn er og lausnin verður að koma fljótlega.

Annar þáttur sem veldur hvað mestum útgjöldum umfram fjárlög er endurmat á útgjöldum til sjúkratrygginga sem nemur tæpum 1,5 milljörðum kr. Þar vegur þyngst aukinn kostnaður við sérfræðilækningar auk útgjalda vegna S-merktra lyfja. Það er ljóst að innbyggður útgjaldaauki vegna lyfjakaupa er mikill í kerfinu og skýr framtíðarstefna hér er ekki síður mikilvæg en í húsnæðismálum. Útgjöld almannatrygginga aukast einnig um 1,2 milljarða frá því sem reiknað var með, bæði vegna afturköllunar á tilteknum fyrri aðhaldsaðgerðum í bótakerfunum og vegna endurmats á undirliggjandi þróun bótagreiðslna. Þá eru horfur á að lífeyrisskuldbindingar verði 750 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Með setningu laga um fjárreiður ríkisins árið 1997 og í greinargerð með því frumvarpi markaði Alþingi skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Almennt má áætla að frávik milli fjárlaga og fjáraukalaga ættu ekki að vera mikil. Annað hefur komið á daginn.

Það er landlægt böl hérlendis að ráðherrar og stofnanir ríkisins eyði umfram heimildir og síðan er málinu reddað með fjáraukalögum. Þau lög eiga fyrst og fremst að ná til meiri háttar frávika sem menn sjá ekki fyrir í fjárlögum. Fjáraukalög eru hins vegar notuð hérlendis sem eins konar ruslakista oft og tíðum. Þangað er hægt að henda inn alls kyns gæluverkefnum sem mönnum dettur í hug að bæta inn á síðustu metrunum, ekki síst þegar kosningaár fer í hönd. Það er ekkert annað en misnotkun á því sem lögin eiga að standa fyrir.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fjáraukalög eigi að afnema. Vonandi batnar ástandið með nýjum fjárreiðulögum.

Ef mönnum er ekki treystandi fyrir súkkulaðinu sem að þeim er rétt verður að fjarlægja það. Fjáraukalög þekkjast ekki í mörgum nágrannalöndum okkar. Þar gera menn ráð fyrir því í fjárlögum að óvænt útgjöld geti komið upp.

Af hverju þurfum við að vera margfalt agalausari í vinnubrögðum okkar en aðrir í kringum okkur? Kannski er ástæðan einfaldlega sú að stjórnmálamönnum er ekki treystandi fyrir fjármunum almennings. Kannski eru þeir einfaldlega vondir bisnessmenn, svo maður noti slæma íslensku. Við lifum nefnilega ekki á pólitískri hugmyndafræði. Hún fleytir landsmönnum skammt í daglegu amstri. Þó verður að horfa til fleiri þátta en peninga í rekstri ríkisins og þá getum við ekki horft fram hjá því að við getum ekki haldið skuldasöfnun áfram.

Það er engu líkara en að menn skilji ekki þá einföldu hluti í þessum sal. Ár eftir ár er ríkissjóður rekinn með halla með viðeigandi lántökum og vaxtagreiðslum. Á sama tíma þurfum við að hlusta á makalausar umræður þar sem endalaust er hneykslast á nánast öllum niðurskurði, síðast í gær þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum kom hingað upp og gagnrýndi niðurskurð hjá RÚV.

Það voru ekki sömu lætin hjá núverandi stjórnarandstöðu þegar skorið var niður á Landspítalanum á síðasta kjörtímabili og hundruð starfsmanna misstu vinnuna þar eða þegar þúsundir starfsmanna misstu vinnuna á almennum markaði. Auðvitað er þetta ekkert annað en popúlismi, að fá prik hjá ríkisfjölmiðli í von um góða og jákvæða umfjöllun. Þetta er elsta bragðið í bókinni.

Það verður þó að segja mönnum það til hróss að staðan varðandi fjáraukalög hefur skánað frá hruni, eins og fram kemur í greinargerð með fjáraukalagafrumvarpi. Krafan um aukið aðhald hefur leitt menn í rétta átt. Það er þó engan veginn gengið nógu langt.

Ef litið er yfir fjáraukalagafrumvarpið er þetta eins og að lesa aðra útgáfu af fjárlögum. Það er engu líkara en að hér séu lögð fram tvenn fjárlög á hverju ári. Ef við lítum yfir viðbótarútgjöldin sjáum við að veita þarf hálfan milljarð til viðbótar til æðstu stjórnar ríkisins. Þetta er ekki bara óvænt útgjöld heldur hlutir sem eiga með réttu að vera í fjárlögum. Hið sama gildir um ýmis önnur ráðuneyti.

Hvaða bull er þetta eiginlega? Þetta segir okkur að fjáraukalög eru tímaskekkja sem lög sem eru oftar en ekki misnotuð af stjórnmálamönnum sem skortir fjárhagslegan aga.