143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi máls míns að taka undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur sem ræddi um vinnulagið hér og hversu frumvarpið kemur seint fram og að lítill tími hafi í rauninni gefist til að fara yfir það. Vinnudagur var hér í gær og ég mælti fyrir máli þannig að ég komst ekki fyrr en seint úr þingsal og því gafst mér ekki tími til að lesa frumvarpið fyrr en í gærkvöldi. Auðvitað er ekki æskilegt að hafa vinnubrögðin með þessu móti og ekki hefur komið nein sérstök skýring á því hvers vegna málið er svona seint á ferð. Þegar maður lítur yfir frumvarpið í fyrstu atrennu er ekkert sem maður telur að hafi átt að verða þess valdandi. Það vekur líka athygli að hvorki formaður né varaformaður fjárlaganefndar er hér núna þegar fjalla á um málið. Mér finnst mjög sérstakt að svo sé og hefði verið áhugavert að vita hvers vegna.

Hv. þm. Karl Garðarsson talaði áðan mikið um aga í fjármálum og það gengi ekki að reka ríkið með halla. Að sjálfsögðu er það þannig að við viljum flest held ég hafa ríkissjóð hallalausan. En ég velti fyrir mér, fyrst hv. þingmanni finnst þetta svona erfitt eins og kom fram í máli hv. hans, að þegar fyrrverandi ríkisstjórn tók við með halla upp á þriðja hundrað milljarða, hvað átti þá að gera? Átti að taka lán eða átti að reka ríkið áfram með halla eða átti bara að gefast upp? Ég veit ekki alveg hvernig hv. þingmaður hefði brugðist við.

Hv. þingmaður ræddi líka um að verið sé að gagnrýna uppsagnir og telur að það hafi ekki verið gert þegar hundruð manna var sagt upp á Landspítalanum. Ég held að ekki hafi verið um að ræða hundruð uppsagna á Landspítalanum í hópuppsögnum. Hins vegar var ekki ráðið í lausar stöður, það er alveg ljóst, og því miður hafa margir hætt vegna aðbúnaðar og kjara sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki ákveðið að betrumbæta til að halda í fólk þar, það er líka alveg ljóst. Vissulega eru 225 manns færri á Landspítalanum en var, en það er fækkun á fjórum árum án fjöldauppsagna. Það var og er hægt að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir. Hægt er að koma í veg fyrir atvinnuleysi með því að afla tekna og með því að hækka skatta.

Hin leiðin hefði verið að skera enn meira niður og segja enn fleirum upp víðar en fyrrverandi ríkisstjórn ákvað að fara ekki þá leið. Við skulum alveg hafa það á hreinu að lausatök voru í fjármálum ríkisins sem settu þjóðina og heimilin nánast á hausinn og þar ber Framsókn ekkert minni ábyrgð en aðrir flokkar, sumir hverjir, en við vonum að þau lausatök heyri sögunni til og okkur takist í sameiningu að komast áfram með að gera ríkisfjármálin skilvirkari með ábyrgari hætti.

Fjáraukalög hvers árs eiga að endurspegla að miklu leyti hvernig til tókst með fjárlögin innan ársins og alla jafna er miðað við það að ef umfang gjaldahliðar fjáraukalaga lækkar á milli ára þá hafi tekist betur til en áður með að halda fjárlögin.

Hæstv. ráðherra fór áðan ágætlega yfir tilgang fjáraukalaganna, þ.e. þau eiga að taka til ófyrirséðra útgjalda en það hefur svo sem ekki verið þannig, við vitum það og höfum gagnrýnt bæði þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna.

Á bls. 66 og 67 fram kemur að frávik frá fjárlögum hafi verið mjög mikil til margra ára og myndin sýnir agaleysi fyrir hrun, vissulega. Umframkeyrsla var og algert stjórnleysi en eftir hrun hefur þó svona heilt yfir verið meiri agi. Á síðasta kjörtímabili var í samstarfi þáverandi fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytis unnið að undirbúningi nýrra laga um opinber fjármál sem eiga að leysa núverandi fjárreiðulög af hólmi. Og ánægjulegt er að núverandi fjármálaráðherra tók við því máli svo gott sem fullbúnu og hefur ákveðið að gera það að sínu og leggja það fram vonandi fyrir jól, og það er vel. Það á að gagnast okkur betur til að halda utan um fjármál ríkisins.

Hér áðan kom fram að notast var við upplýsingar frá Hagstofunni síðan í sumar en í nýjustu útgáfu er gert ráð fyrir að hagvöxturinn í ár verði 2%. En þegar frumvarpið var í smíðum var spáð 2,5% hagvexti. Seðlabankinn gerir hins vegar ráð fyrir að hann verði örlítið meiri, eða 2,3%, og fjárlögin byggjast á því. 1% minni hagvöxtur er um 18 milljarðar, en 0,3%, sem þarna kannski munar þá, eru um 6 milljarðar.

Ef við viljum sýna ábyrga fjármálastjórn þá getum við rætt það að við höfum verið með Helguvík inni mjög lengi og erum enn með hana inni, en ég held að hún verði ekki að veruleika þannig að ég held að fjáraukalögin séu í rauninni ekki rétt sem því nemur, þ.e. þær útgönguspár sem gengið er út frá.

Svo má líka velta fyrir sér: Hvers vegna er hagvöxturinn minni? Hverjar voru væntingarnar til núverandi ríkisstjórnar sem ætlaði að koma hjólum atvinnulífsins í gang? Að í rauninni þyrfti ekki annað en að þessir tveir flokkar kæmust til valda? Svo var að minnsta kosti látið fyrir kosningar. En í sjálfu sér hefur ríkisstjórnin ekki sett í gang eina einustu framkvæmd frá því að hún tók við eða tekið ákvörðun um nokkra einustu framkvæmd ef við höldum því til haga. Hins vegar er búið að slá þær flestar af sem fyrrverandi ríkisstjórn var búin að setja fram. Auðvitað veltir maður fyrir sér hvernig ríkisstjórnin ætlar að auka hagvöxt ef svo heldur fram sem horfir. Mér finnst að flestar þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið hafi valdið óvissu og ólgu, fólk heldur að sér höndum í fjárfestingum og ýmsu fleiru. Ég held að það hafi alltaf töluverð áhrif að sjálfsögðu hvað ríkisstjórnin setur fram hverju sinni.

Fram kemur í fjáraukanum að efnahagsbatinn hafi verið hægari en áætlað var við gerð fjárlaga 2013 og hafi það í för með sér að tekjur ríkissjóðs vaxi einnig hægar. Áhrif breyttrar þjóðhagsspár má ráða af því að þótt horfur séu á að tekjur verði mun minni en áætlað var verða þær nánast óbreyttar sem hlutfall af landsframleiðslu. Við þurfum líka að halda því til haga að efnahagserfiðleikar okkar við helstu viðskiptalönd hafa mikil áhrif á tekjur þjóðarinnar, útflutning og viðskipti, og kjörin á erlendum mörkuðum gagnvart Íslandi eru nú verri en í upphafi 7. áratugarins. Það hefur auðvitað mikil áhrif á samanlagðar tekjur og vöxt ríkisins.

Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn til hækkunar í frumvarpinu er áformað 4,5 milljarða kr. rekstrarframlag til Íbúðalánasjóðs vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins. Hér er um að ræða fjárheimild sem tekur mið af fyrirliggjandi greiningu og áætlunum en hún verður endurskoðuð á næstunni á grundvelli nýrra upplýsinga sem verður aflað frá sjóðnum og áforma um aðgerðir í málefnum hans. Mig langar því til að vita hver staða Íbúðalánasjóðs er í rauninni. Hvenær má vænta niðurstöðu er varðar framtíð hans? Getur hæstv. ráðherra svarað því? En það má auðvitað líka segja að framlag til Íbúðalánasjóðs sé ekki hluti af rekstri ríkisins. Þetta er óreglulegur liður, kemur í sjálfu sér kannski rekstri ríkissjóðs ekkert við, þ.e. endurspeglar í rauninni miklu frekar vanda frá hruninu sem þarf að leysa til framtíðar. Þetta er sagður fjórðungur af halla 2013.

Útgjöld vegna vaxtabóta lækka talsvert sem kemur til af bættri skuldastöðu. Það kemur fram í frumvarpinu. Við vitum þó að staða margra heimila er ekki góð og nú er biðinni væntanlega að ljúka eftir hinum risavöxnu aðgerðum þeim til handa. Svo finnst mér rétt að nefna að allar upplýsingar sem fram til þessa hafa komið frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um afkomu ríkisins á árinu benda til þess að tekjuáætlun ríkisins standist og gott betur. Í síðustu tilkynningu um greiðsluafkomu ríkisins fyrir fyrstu níu mánuði ársins segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2013 liggur nú fyrir. Staða handbærs fjár frá rekstri batnaði miðað við sama tímabil 2012 og var neikvætt um 28,7 milljarða kr. en var neikvætt um 42,3 milljarða kr. 2012. Tekjur jukust um 19,2 milljarða kr. milli ára og gjöld um 10,4 milljarða kr. Viðskiptahreyfingar höfðu jákvæð áhrif á handbært fé um tæpan 1 milljarð kr. á móti neikvæðum áhrifum 2012 um tæpa 4 milljarða kr.“

Hér í dag hefur verið farið vel yfir tekjur sem ákveðið var að gefa eftir á sumarþingi og var ætlað í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að líklega þyrfti hann að taka þetta saman í eitt skipti fyrir öll til að umræðan væri ekki með þeim hætti sem kemur m.a. fram í fjáraukanum og fjárlögum næsta árs. Ég held að það sé bara mjög tilvalið.

Það eru ansi mörg athyglisverð frávik í fjáraukanum sem koma fram og mig langar aðeins að velta ýmsu upp. Það verður niðurskurður, hætt verður við verkefni og annað því um líkt. Eins hefur verið komið inn á hér að sumt er ruglingslegt, verið er færa á milli ráðuneyta og erfitt er að bera saman. Margir sjóðir hafa verið nefndir þar sem ýmist hefur verið slegið af eða dregið verulega úr framlögum. Mér fannst það áhugavert þegar hæstv. ráðherra sagði áðan að það væri þá nefndarinnar að athuga hvort í lagi væri að slá af eða fella niður ákveðna styrki sem í frumvarpinu eru. Ég hélt að það ætti að liggja fyrir hvort heimild væri fyrir því eða ekki þegar svona lagað væri sett fram. Slegnir eru af rúmir 5 milljarðar í heild sinni í sjálfu sér, þ.e. fangelsið á Hólmsheiði, framhaldsskólar, byggingar, háskólasöfn og listir, iðnaðarstarfsemi, samgöngur á sjó og í lofti og ýmislegt fleira sem farið hefur verið yfir hér hvernig áætlunin var um að fjármagna það allt. Það er auðvitað frekar dapurt að ekki skuli vera hugað að innviðum samfélagsins, uppbyggingu ferðamannastaða, sem við vitum nú þegar að margir þola ekki meiri ágang, en á sama tíma er verið að leggja fé í að markaðssetja landið, eins og kom fram hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, og það getur ekki talist sjálfbær ferðaþjónusta, eins og við væntanlega viljum stuðla að.

Það vekur líka athygli, eins og farið hefur verið vel yfir, að forsetaembættið fær viðbót núna og vert er að rifja það upp að við 2. umr. og held ég við lokafjárlögin líka, þ.e. þegar unnið var að gerð frumvarpsins 2013, þá fékk forsetaembættið töluverða viðbót, ég held allt upp í 30 millj. kr. Það er því verið að gefa vel í þar til viðbótar. Eitthvað af þessu hlýtur að hafa verið fyrirséð eða getað beðið næsta árs. Við vitum öll af hækkununum í Stjórnarráðinu vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna sem er auðvitað ekki til fyrirmyndar þegar lagt er upp með aðhald í öllum stofnunum.

Í frumvarpinu eru margir stórir liðir sem því miður voru kannski ekki fyrirséðir og allt of stórir. Beiðni er um 40 millj. kr. vegna starfa tveggja sérfræðihópa. Það kostar sjálfsagt töluverða peninga að fá utanaðkomandi sérfræðinga til að segja ríkisstjórninni hvernig best er að gera hlutina. Ég hefði haldið að í þessu tilfelli byggjum við yfir afar góðu fólki í ráðuneytunum til að fara yfir þetta. Og það er ekki allt búið því að í fjáraukanum kemur fram að gera megi ráð fyrir að einhver kostnaður falli til eftir áramótin líka. Það er kannski vert að spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu sem liggur fyrir, eins og það er núna.

Í máli hæstv. fjármálaráðherra kom fram að fjármálaráðuneytið veit um hallarekstur sem ekki er óskað eftir að verði leiðréttur í fjárlögum. Mér finnst mikilvægt fyrir okkur nefndarmenn í fjárlaganefnd að spyrja hæstv. ráðherra um hvaða stofnanir er að ræða og hvað er fyrirhugað að gera í málefnum þeirra. Er ætlunin að fella niður hallann í lokafjárlögum? Erum við þá að tala um stórar stofnanir eins og Landspítalann, heilsugæsluna í Reykjavík, sýslumenn, Vegagerðina? Um hvað erum við að tala? Það er mjög merkilegt ef það er þannig að við ætlum að flytja það alveg inn í lokafjárlög. Ég held að við í fjárlaganefnd mundum ekki vilja gera það.