143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[14:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem er töluvert tæknilegs eðlis, en felur engu að síður í sér mjög athyglisverða þætti. Í fyrsta lagi eru nokkur atriði þarna, t.d. 1. gr., 3. gr., 5. gr. og 6. gr. sem fjalla um leiðréttingar á því að fjármagnstekjuskattur gagnvart einstaklingum er órökréttur og var það gert meðvitað þegar hann var settur á. Ef fjármagnstekjuskattur hefði verið rökréttur og menn hefðu getað dregið vaxtagjöld frá, jafnvel eingöngu skattað raunvexti og dregið frá viðhald á húsnæði o.s.frv., hefðu tekjur ríkisins ekki orðið neinar af þessum skatti heldur jafnvel útgjöld. Niðurstaðan varð sú að hafa skattprósentuna mjög lága, 10%, og hafa skattinn órökréttan þannig að ef það eru vaxtatekjur á sama tíma og vaxtagjöld hjá einstaklingum horfir ríkið bara á vaxtatekjurnar og gleymir meðvitað vaxtagjöldunum og öllum kostnaði, tapi á hlutabréfum og öðru slíku. Á það horfir ríkið ekkert, það skattleggur hins vegar hagnaðinn.

Það gekk ágætlega á meðan skatturinn var í samræmi við það að hann var órökréttur, 10%. En svo var hann hækkaður í þrepum upp í 20% og þá fór það virkilega að bíta í og kom í ljós hvað skatturinn er órökréttur, það jaðraði jafnvel við mannréttindabrot í sumum þáttum. Til dæmis getur það orðið allt að því skelfilegt með afleiðusamninga. Menn geta stundað afleiðusamninga sem eru líka mjög mikilvægur þáttur til að minnka áhættu aðila í atvinnulífi. Frumstæðustu afleiðusamningarnir eru þeir þegar bóndi selur uppskeruna áður en hann setur niður. Þá er hann búinn að selja, hann er búinn að ákveða verðið, hann er meira að segja búinn að ákveða magnið þannig að hann fær tryggingu fyrir því að hann hafi þessar tekjur út úr dæminu hvernig sem fer. Afleiðusamningar taka af honum áhættuna og þannig er með margt, afleiðusamningar geta tekið áhættuna af mönnum varðandi gengisþróun eins og lífeyrissjóðirnir fengu reyndar bitra reynslu af. Þeir eru mjög mikilvægir, en að láta sér detta í hug að skattleggja bara tekjurnar en ekki gjöldin gerir það að verkum að það er ekki skynsamlegt fyrir einstakling að stunda afleiðusamninga, bara alls ekki, það ætti eiginlega að banna það vegna þess að fjármagnstekjuskatturinn er órökréttur.

Í félagaforminu, í hlutafélögum og víðar, er fjármagnstekjuskatturinn rökréttur. Þar getur maður dregið frá vaxtagjöld o.s.frv. þannig að þar kemur þetta ekki upp. Hér er sem sagt verið að laga það í nokkrum greinum.

Svo eru þarna athyglisverðar hugmyndir um að laga ákveðna lausn sem menn tóku upp; menn fóru að stofna hlutafélög til að geta borgað sér mikinn arð en ekki há laun. Nú eru í gildi lög um reiknað endurgjald en þau lög bregðast, þ.e. framkvæmdin hefur ekki fylgt eftir. Þess vegna brugðu menn á það ráð að segja: Ef það er meira en 20% sem úthlutað verður sem arði ætti það sem er umfram að teljast til tekna. Það var eiginlega flótti frá því að taka á vandanum sem er reiknaða endurgjaldið.

Nú lofa menn því að koma með skilvirkar reglur, en ég hefði til dæmis talið að reiknaða endurgjaldið í svona hlutafélagi mætti ekki vera miklu lægra en úthlutaður arður, eitthvað slíkt, þannig að menn geti ekki farið þá leið að láta allt fara sem úthlutaðan arð af því að þar er skattprósentan lægri þó að hún sé reyndar tvöföld. Í fyrsta lagi borgar fyrirtækið skatt af hagnaði, 20%, og síðan borgar móttakandinn skatt af þeim 80% sem hann getur fengið útborgað. Hann borgar 20% af því sem fjármagnstekjuskatt þannig að þetta er tvískattað og er þar af leiðandi ekki eins hagkvæmt og var. Það veitir auk þess engin réttindi í lífeyrissjóðakerfinu, sjúkrasjóðum, úti um allt. Svona tilfærslur og hliðranir veita ekki réttindi.

Ef mönnum tekst að koma með almennilegar reglur fyrir reiknað endurgjald er þessi regla algjörlega óþörf. Svo er það þegar fyrirtæki er slitið eða það sameinað öðru hlutafélagi milli landa, yfir til Evrópusambandsins, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti í ræðu sinni. Honum þótti rausnarlegt að menn gætu dreift þessu á fimm ár. Það er reyndar árleg greiðsla þannig að meðallánstíminn er miklu styttri. En þá verður að hafa það í huga að þessi hagnaður er ekki orðinn til, þetta er kannski bókhaldshagnaður sem ekki er sýndur, auk þess sem menn vilja hafa féð inni í fyrirtækjunum til að það geti vaxið frekar og borgað þá enn meiri skatta í framtíðinni.

Við hugsum til dæmis um nýsköpunarfyrirtæki í hugbúnaði sem sameinast einhverju fyrirtæki í útlöndum, kannski vegna þess að umhverfið á Íslandi er ekki nógu hagkvæmt. Þá þarf að skattleggja hagnað sem er meira sýnd veiði en gefin. (Gripið fram í.) Kemur kannski og kemur kannski ekki en það þarf að skattleggja. Hagnaðurinn er skattlagður. Menn ætla að fjárfesta heilmikið en svo eftir fimm ár tapa þeir öllu saman og þá eru þeir búnir að borga skatt af því. Það gerir það að verkum að menn dreifa þessu, eða ég held að það sé hugsunin á bak við það. Það er rökrétt.

Ég hlakka til að taka á þessu frumvarpi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég á sæti í, vegna þess að í því eru mörg athyglisverð úrlausnarefni til að glíma við.