143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

195. mál
[19:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. 1. flutningsmanni Ragnheiði Ríkharðsdóttur að þetta er afar gott mál og margir hafa komið að því og ég man einmitt eftir umræðu um það. Mér fannst áhugaverður síðasti punkturinn sem þingmaðurinn nefndi um réttindi til handa þeim sem eru kannski utan vinnumarkaðar lengi vegna ástundunar í íþrótt sinni, hver svo sem hún er. Það getur oft verið langur tími eins og hér hefur komið fram.

Eins og kom líka fram hafa mörg sveitarfélög útnefnt sína afreksíþróttamenn því þeir koma alls staðar að af landinu, sem betur fer, og eru góðar fyrirmyndir í því sem þeir eru að gera. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann, því þetta er eflaust eitthvað sem kostar töluverða peninga, hvort það hafi einhvers staðar komið fram í undirbúningsvinnunni sem hún vitnar til hver kostnaðurinn gæti verið. Hér er talað um að tímasetja þetta og ég tel það afskaplega gott til langs tíma. Það sem afreksíþróttamenn hafa kannski staðið frammi fyrir er að það er alltaf verið að vinna þetta ár frá ári og þar af leiðandi er lítill tryggur stuðningur. Miðað við það hvernig flutningsmenn hugsa þessa tillögu þá langar mig til að spyrja um kostnaðinn. Hefur hann einhvers staðar komið fram?

Að öðru leyti er þetta afar góð tillaga, held ég, og ég mun styðja hana.