143. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2013.

mannanöfn.

200. mál
[20:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að árétta það þá er ég ekki að hengja neinn stjórnlyndismerkimiða á hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. En mér finnst þetta sérstaka mál vera ágætisdæmi um mál sem við getum aðhyllst mjög róttækt traust og treyst fólki til að fara vel með þegar kemur að íslensku mannanafnahefðinni.

Hitt sem ég vildi nefna og er það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni varðar kaflann um ráðherra, sem ég er alveg sammála um að þarf að ræða sérstaklega í þinginu og í störfum nefndarinnar og var m.a. mikið ræddur innan þingflokks Bjartrar framtíðar. Þar er reynt að fara með svolítið varfærnislegri nálgun í málið þannig að þar sé einhvers konar öryggisventill innbyggður en það er auðvitað búið að gera málið þannig úr garði að mun færri vafaatriði eiga að koma upp. Þau sjónarmið sem ráðherra þyrfti að horfa til væri eitthvað sem t.d. væri æskilegt að kæmi fram í nefndaráliti eða jafnvel breytingartillögum við frumvarpið við meðferð þess í þinginu. Ég teldi líka koma til greina að þetta væri einhvers konar tímabundið fyrirkomulag, eitthvað sem við mundum velta fyrir okkur að hafa fyrst um sinn en það er auðvitað bara umræðum háð í þinginu hvernig menn mundu vilja sjá þetta fyrir sér.