143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

leiðrétting verðtryggðra námslána.

[15:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem fram kom í fyrirspurn hv. þingmanns að ekki falla öll verðtryggð lán undir þá aðgerð sem kynnt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána. Í þeim tillögum var því ekki gert ráð fyrir því að námslán, sem eru verðtryggð, verði færð niður til að mæta verðbólguþróuninni. Í þeirri umræðu er rétt að hafa það hugfast að námslánin eru í raun og veru niðurgreidd eða í þeim er falinn styrkur með beinum hætti upp á 31%. Ég bað um að fá upplýsingar frá lánasjóðnum um það hversu stór hluti námslána væri styrkur. Svarið sem ég fékk er að að meðaltali hjá meðalnámsmanni eru 31% af láninu styrkur.

Það er líka rétt að hafa það í huga að þegar kemur að endurgreiðslu námslána þá er innbyggður í þá endurgreiðslu sveigjanleiki sem tengist launum. Er þetta því nokkuð ólíkt t.d. þeim lánum sem um er að ræða sem snúa að íbúðahúsnæði. Ég mun væntanlega eiga fund með formanni stjórnar lánasjóðsins í næstu viku. Ég mun ræða stöðuna við hann en ég ætla að leyfa mér að segja að ég tel að það hefði þurft að taka ákvörðun um það á þeim vettvangi þar sem ákvörðunin um niðurfærsluna á íbúðalánunum var tekin, þ.e. hina almennu aðgerð. Þar sem ekki var tekin ákvörðun um það þar þá sé ég varla að lánasjóðurinn verði fær um það einn og sér að taka námslánin eða fella niður verðbætur á námslánunum að einhverjum hluta. Ég held að sjóðurinn sé ekki fær um að gera það.

En ég mun að sjálfsögðu ræða þetta við stjórnarformann og stjórn LÍN eins og ég hef sagt, en ég vara við einhverri bjartsýni um að það þýði að lánasjóðurinn einn og sér geti fært niður lánin.