143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

kvótasetning í landbúnaði.

[15:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skilmerkilegt svar. Það kom fram í máli hans, sem er augljóst, að allar þær forsendur sem lágu til grundvallar því að farið væri út í kvótastýringuna á sínum tíma eru farnar, hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir það.

Ég er sammála honum um að það eru tækifæri í matvælaframleiðslu á Íslandi, jafnt í landbúnaði sem annars staðar. En ég sé engin málefnaleg rök fyrir því að vera með kvótastýringu í þessu. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að ganga rösklega til verks, sem hæstv. ráðherra gerir nú oft, því að ekkert er unnið með því að hafa eitthvert kerfi sem hefur engan tilgang. Hæstv. ráðherra færði mjög góð rök fyrir því að engin ástæða er til að halda þessari kvótastýringu áfram.