143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[16:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. menntamálaráðherra ætlaði einmitt að fara þá leið að opna fyrir það að Ríkisútvarpið sæki enn frekar inn á auglýsingamarkað. Fyrir rúmlega 10 árum kom ég hingað inn á Alþingi. Síðan þá höfum við verið að takast hér á þvert á flokka um málefni Ríkisútvarpsins. Þess vegna var það mikið gleðiefni á síðasta vetri þegar loksins tókst þverpólitísk samstaða um ný heildarlög um Ríkisútvarpið. Þar náðum við saman um þverfaglega stjórn, þar náðum við saman um fjármögnunina og þar náðum við saman um hlutverk og framtíðarskipan Ríkisútvarpsins. Það voru allir flokkar á Alþingi með á þessu nema Sjálfstæðisflokkurinn. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gátu ekki einu sinni komið sér saman um það þó að vera á móti, þeir skiptust í hjásetu og minni hluta sem var á móti.

Virðulegi forseti. Núna erum við greinilega komin með við ríkisstjórnarborðið fulltrúa þessa minni hluta á síðasta þingi sem ætlar hér að taka málið og henda því öllu upp í loft aftur og skemma þann frið, fara aftur inn á vígvöllinn, sem hafði verið skapaður þverpólitískt um málefni Ríkisútvarpsins. Það sáum við strax hér á sumarþingi þegar hæstv. ráðherra kom með breytingu á stjórninni; við erum aftur komin með stjórn sem er pólitísk og er með puttana í dagskrárgerð — og líka í því að samstaða hafði náðst um að nefskatturinn skyldi nýttur að fullu í að fjármagna Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Hér ríkir algert stefnuleysi og þessi hugsun virðist ráða för: Af því að ég vildi það ekki, af því að ég var í litlum minni hluta á síðasta þingi, þá ætla ég að breyta þessu. Ég ætla að hunsa þá breiðu samstöðu sem náðist um málefni Ríkisútvarpsins á síðasta kjörtímabili. Það er það sem er að gerast hér. Ég kalla eftir því að Framsóknarflokkurinn komi hingað upp og standi fyrir máli sínu: Hvers vegna eru menn núna að hlaupa frá samþykktum sem þeir tóku þátt í að gera á grundvelli breiðrar samstöðu á síðasta kjörtímabili?