143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

loftslagsmál.

214. mál
[16:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál. Tilefni frumvarpsins er að leggja til breytingar á fjárhæð losunargjalds sem lagt er á samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál.

Í 14. gr. laganna er kveðið á um heimild til að setja starfsstöðvar með litla losun gróðurhúsalofttegunda og lítið uppsett afl utan gildissviðs viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir tímabilið 2013–2020. Tilgangurinn er að draga úr stjórnsýslubyrði lítilla losenda án þess þó að mismuna fyrirtækjum í samkeppnislegu tilliti. Heimildin nær til þeirra starfsstöðva sem hafa losun undir 25 þús. tonnum af koldíoxíðsígildum á ári og ef brennsla er hluti af starfseminni verður uppsett afl stöðvarinnar að vera undir 35 megavöttum á ári.

Fjögur fyrirtæki og starfsstöðvar eru undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir samkvæmt greininni. Þær eru: Steinull hf. á Sauðárkróki, HB Grandi á Akranesi og starfsstöðvar Ísfélags Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Gert er ráð fyrir því í lögunum að þær starfsstöðvar sem eru undanþegnar gildissviði viðskiptakerfis ESB skuli greiða losunargjald í samræmi við losun gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á undangengnu ári. Losunargjald skal þó aðeins greitt af þeirri losun sem er umfram þann fjölda tonna sem starfsstöðin hefði fengið úthlutað endurgjaldslaust hefði hún fallið undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Í ljósi þess að losunargjaldið hefur á sér einkenni skatts er nauðsynleg að mæla um fyrir fjárhæð gjaldsins í lögum. Losunargjaldið sem rennur í ríkissjóð skal jafngilda meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. ágúst árið áður en hin gjaldskylda losun á sér stað. Með öðrum orðum, losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu tímabilið 1. september 2012 til 31. ágúst 2013.

Samið var við KPMG ehf. um að útbúa skýrslu um meðalverð losunarheimilda á framangreindu tímabili. Við gerð skýrslunnar studdist KPMG við gögn af frummarkaði og eftirmarkaði fimm mismunandi kauphalla. Í henni kemur fram að meðalverð losunarheimilda á fyrrgreindu tímabili hafi verið 5,44 evrur á hvert tonn af koldíoxíði, eða sem nemur 892 ísl. kr. Þetta er lækkun frá fyrra ári því losunargjald samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/2012 vegna ársins 2013 nemur 1.338 kr. fyrir tonnið.

Því er lagt til í frumvarpi þessu að 4. mgr. 14. gr. laga nr. 70/2013, um loftslagsmál, verði breytt þannig að fjárhæð losunargjalds fyrir árið 2014 nemi 892 kr. fyrir hvert tonn gjaldskyldrar losunar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.