143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

samvinna við sveitarfélögin um skuldaleiðréttingar.

[14:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Forgangsröðun okkar er mjög skýr. Hún er fyrir vinnandi fólk í landinu (Gripið fram í.) sem mun upplifa vöxt í kaupmætti ráðstöfunartekna á næsta ári ólíkt því sem mundi gilda ef við færum eftir nýjum fjárlagatillögum Vinstri grænna sem seilast beint ofan í vasa venjulegra Íslendinga sem eru úti á vinnumarkaðnum vegna þess að falla á frá hugmyndum um að lækka tekjuskattinn. Það á að hækka virðisaukaskattinn á mat og öllu því sem fylgir (SSv: Nei, á ferðaþjónustuna.) [Háreysti í þingsal.] í neðra virðisaukaskattsþrepinu. (SSv: Nei, á ferðaþjónustuna — bara.) Fyrirgefið, er það á ferðaþjónustuna? Það á sem sagt að halda áfram að ganga að (Gripið fram í.) ferðaþjónustunni í landinu sem er í vexti og skilar tekjum. (Gripið fram í.) Forgangsröðun okkar er í þágu aldraðra og öryrkja sem fá um það bil 5–6 milljarða í vöxt á bótum sínum á næsta ári. Við erum líka að lækka tekjuskattinn um 5 milljarða vegna þeirra sem eru úti á vinnumarkaðnum. (Gripið fram í.) Við komum með 20 milljarða í skuldalækkanir á næsta ári. Vilji menn ræða það hér að við höfum tekið til skoðunar á milli umræðna að skerða einstaka (Forseti hringir.) bótaflokka um 200–300 millj. kr. án þess að fyrir liggi endanlega niðurstaða (Forseti hringir.) þá hafa þeir tekið augun af aðalatriðunum og þyrla upp ryki í umræðunni.