143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bíð enn eftir svörum frá forustumönnum fjárlaganefndar við því sem var tekið hér upp áðan og óska eftir því, ef þau ekki berast, að gert verði hlé á þingfundi og boðað til fundar með formönnum þingflokka til að fá skýringar á því sem óskað var eftir.

Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa heyrt frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands umkvartanir um málsmeðferðina í fjáraukalögunum hjá stjórnarmeirihlutanum sjálfum, en það endurspeglar kannski betur en margt annað með hvílíkum ólíkindum verklagið er allt í kringum bæði fjárlögin og fjáraukalögin.

Ég vil nú lýsa því að maður hefur býsna mikinn skilning á því að sá atburður sem hæstv. ráðherra nefnir og er fjárdráttur sé sannarlega ófyrirsjáanlegur og eðlilegt megi teljast að útgjöldin falli undir það sem fjáraukalögin eigi að innihalda, enda geta menn ekki gert ráð fyrir slíku í tillögum sínum. Ég vil nú inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hyggist flytja breytingartillögu um að úr þessu verði bætt. Það væri athyglisvert fyrir okkur að vita af því; við gætum þá undirbúið hvaða afstöðu við tækjum til slíkrar tillögu.

Ég vildi síðan nota tækifærið og spyrja líka hæstv. ráðherra um það sem kom fram hjá formanni fjárlaganefndar í framsögu hennar, að framsóknarmenn hefðu aldrei reiknað með því að fá hina svonefndu IPA-styrki sem gegna nokkru hlutverki í þessum fjáraukalögum og að þeir hefðu aldrei gert ráð fyrir tekjum af IPA-styrkjunum í áætlunum sínum. Ég vil einfaldlega inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort hann sé einn af þeim framsóknarmönnum sem aldrei gerðu ráð fyrir þeim tekjum í áætlunum sínum eða hvort hann sé utan við það mengi framsóknarmanna.