143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki öll nótt úti enn. Eftir er 3. umr. um fjáraukalagafrumvarp. Ég held að hv. þingmaður gerði nú gott í því að einfaldlega taka það mál á dagskrá í velferðarnefnd og boða til aðila sem þekkja til ástandsins og fara aðeins yfir það. Við verðum að trúa því í lengstu lög að hv. stjórnarþingmenn mundu gera eitthvað með það ef mat fagaðila væri að þetta mundi verða verulega til hins verra fyrir þann hóp sem er að reyna að undirbúa eitthvert jólahald núna, sem ég geri fastlega ráð fyrir að sé.

Varðandi spurninguna um kælingu hagkerfisins og afkomu ríkissjóðs í járnum eða jafnvel hallarekstur allt þetta kjörtímabil verð ég að játa að ég deili mjög áhyggjum hv. þingmanns af því. Fyrir það fyrsta er það nú þannig að að svo miklu leyti sem hægt er að kalla að fyrir liggi einhver ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma — sem reyndar gerir ekki því miður, herra forseti, og veldur mér miklum vonbrigðum. Það er varla hægt að kalla það ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma sem birtist með fjárlagafrumvarpinu í haust og er einfaldur framreikningur, en hann sýnir okkur afkomu ríkissjóðs í járnum næstu fjögur ár. Það má ekkert út af bera til að kominn sé halli á rekstur ríkisins.

Nú er augljóst að nýjar áherslur í ríkisfjármálum eru til kælingar. Þær draga t.d. úr fjárfestingum og uppbyggingu í innviðum og nýsköpun í atvinnumálum. Ég held að skattalækkanir eins og þær eru útfærðar og ef þær koma fyrst og fremst tekjuhæsta fólkinu til góða muni ekki veita þá örvun í staðinn í formi aukinnar einkaneyslu að hún muni vega það upp.

Ég fæ því ekki betur séð en að heildaráhrifin séu neikvæð fyrir hagvöxt og eftirspurnarstigið í hagkerfinu. Það er auðvitað grafalvarlegt mál því að þá má við því búast, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að útkoman verði viðvarandi halli á fjárlögum.