143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hún fór vel yfir söguna, í hvers konar ástandi við vorum að vinna hér á síðasta kjörtímabili og hvernig fyrri ríkisstjórn tók á málum. Við fórum einmitt blandaða leið, bæði niðurskurðar og skatta- og gjaldahækkana. Fara þurfti þessa blönduðu leið til að gæta þess að ganga ekki svo nærri ríkisstofnununum að þær gætu ekki þjónað þeim sem helst þyrftu á þeirri þjónustu að halda og einnig að ná í tekjur til að brúa þetta bil. Við erum sem sagt að fara úr 216 milljarða gati og stöndum frammi fyrir 20 milljarða gati.

Þegar við skoðum það hvernig þetta er samsett, þessir 20 milljarðar, er stærsti hlutinn, meira en helmingurinn, á tekjuhliðinni. Tekjurnar koma ekki hratt inn, að minnsta kosti ekki á fyrri hluta ársins og á það einkum við um neysluskattana. Auðvitað hafa, eins og hv. þingmaður fór vel yfir í ræðu sinni, afslátturinn til útgerðarmanna og erlendra ferðamanna og síðan IPA-styrkirnir áhrif.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að kosningaloforð stjórnarliða hafi ekki haft áhrif á neyslu fólks, hvort fólk hafi ekki verið að bíða eftir að sjá hvað yrði nú um loforðin — þess vegna héldi fólk að sér höndum og skattarnir skili sér þá frekar nú í jólamánuðinum. Ég vil spyrja hv. þingmann um þessar áherslur og gagnrýni stjórnarliða á þennan tekjumissi.