143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður dró mjög skýrt fram áherslur ríkisstjórnarinnar. Fyrr í sumar tók hún ákvarðanir sem veittu afslátt upp á rúma 4 milljarða samtals og hér er verið að leggja til að það sé tekið inn í tekjuhluta fjáraukalagafrumvarpsins. Hún leggur hins vegar ekki til aukafjárveitingu til desemberuppbótar upp á 240 millj. kr. Þetta dregur svo vel fram þær skýru línur sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt.

Ég spyr hv. þingmann um fjarskiptasjóð og þau verkefni sem honum ber samkvæmt lögum skylda til að hrinda í framkvæmd og er með áætlanir um. Samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar eiga mörkuðu tekjurnar ekki að renna í sjóðinn, upp á 195 millj. kr., sem meðal annars áttu að nýtast til að leggja ljósleiðara um dreifðar byggðir landsins og fara á þau svæði sem fjarskiptafyrirtækin sinna ekki. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er landsbyggðarþingmaður, hvaða afleiðingar hún telji að það hafi á vænleg búsetuskilyrði í dreifðum byggðum landsins.