143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að segja orðið sem mér var eiginlega efst í huga en með þessu er alveg óvenjulega langt gengið að mínu mati. Það sem verið er að gera í reynd er að búa til inni í fjáraukalögum nýja merkingu á þennan fjárlagalið vegna þess að það á að breyta ráðstöfun fjárins. Það á ekki að ganga í það sem það var sett inn í fjárlög ársins til að gera. Gott og vel, einhverjar eftirstöðvar mundu standa þarna eftir. Hvað gera menn þá hér? Jú, þetta er skýrt upp á nýtt. En það er ekki nóg vegna þess að þetta hlýtur að vera ávísun á það að hæstv. menntamálaráðherra tali svo við vin sinn, fjármálaráðherra, rétt fyrir áramótin og biðji hann um yfirfærslu á fjárheimildinni svo breyttri yfir á árið 2014, því að öðruvísi er ekki hægt að nota hana. Það þarf jú að samþykkja færslu fjárheimilda milli ára. Oftast er það gert samkvæmt tilteknum reglum en annars eru þær felldar niður með lokafjárlögum o.s.frv.

Hér er verið að fara á svig við a.m.k. þrjú prinsipp sem á að hafa í heiðri þegar menn umgangast þessi mál. Það er mjög ljótur svipur á þessu, verð ég að segja, verandi þó ekkert að taka endilega afstöðu til þess hvort fjármununum sé vel varið eða ekki. Mér fyndist að vísu lágmark að hæstv. menntamálaráðherra útlistaði þetta og það lægi þá fyrir að hér hefði verið einhver kynning á þeirri stefnu sem þarna á að leggja til grundvallar í sambandi við breyttar áherslur í menntamálum. En þetta er algjör fjallabaksleið og sveigt þarna fram hjá tveimur, þremur góðum grundvallarreglum sem á að reyna að halda í heiðri, að ónýttar fjárveitingar séu felldar niður ef yfirfærsla þeirra milli ára er umfram þær reglur sem settar hafa verið. (Forseti hringir.) Stundum var nú notast við 4% á ári og að hámarki 10% uppsafnað, (Forseti hringir.) samanber það sem menn mega færa með sér (Forseti hringir.) af innstæðum milli ára. Þessu er öllu ýtt (Forseti hringir.) til hliðar.

(Forseti (ÓP): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk.)