143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður ræddi um stöðu fjáraukalagafrumvarpa og umræður sem urðu hér í gær, nokkuð spaklegar, um aðferðafræðina í Svíþjóð, þá er það að sönnu rétt að Svíar hafa um árabil haft öguð vinnubrögð, bæði varðandi undirbúning fjárlaga og vinnubrögð við framfylgni þeirra. Þeir nota það sem kölluð er rammaaðferðafræði og hefur í raun verið í undirbúningi hér um nokkurra ára skeið, tveggja til þriggja ára skeið, að taka upp á Íslandi; var liður í ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar hann kom hér í árdögum og leit á þessi mál, mælti eindregið með því.

Í grunninn gengur sú aðferðafræði út á að afgreiddir eru á þinginu bindandi útgjaldarammar að vori. Framkvæmdarvaldið hefur síðan svigrúm til að fylla út í þá ramma en verður að halda sig innan þeirra. Þannig að fjárlagafrumvarpið kemur fram að hausti í samræmi við rammana. Hins vegar er þar síðan pottur til að ráðstafa í ófyrirséð útgjöld, nákvæmlega eins og við tókum upp hér strax á árinu 2009. Í fyrsta sinn var í fjárlögum á Íslandi stór, óskiptur varasjóður upp á milli 4 og 5 milljarða kr. — lagt upp með 5 milljarða, lækkaði reyndar nokkuð í meðförum þingsins þannig að hann var eitthvað um 4 milljarðar — og það kom sér vel strax á næsta ári þar á eftir því að náttúruhamfarirnar á Íslandi í apríl og í framhaldinu 2010 — ætli þær hafi ekki endað með því að kosta ríkissjóð eða hið opinbera eitthvað á annan milljarð króna og það fé kom allt úr þessum potti.

Alþingi samþykkir ráðstöfun þess eftir á, þ.e. pottinum er skipt og síðan eru fjárheimildirnar færðar í fjáraukalögum með samþykki Alþingis yfir í þau verkefni sem komu upp á á árinu. Það er liður í því að draga úr vægi og þörf fyrir fjáraukalög. En auðvitað verður aldrei hægt að útiloka þau og það sem skiptir mestu máli er, og mesta agaleysið er, þegar smyglgóss er tekið inn í fjáraukalög (Forseti hringir.) sem á þar ekkert erindi. Það finnst mér verra en í sjálfu sér að menn séu með fjáraukalög til umfjöllunar. Og (Forseti hringir.) því miður er það tilfellið, hér eru liðir sem eiga ekki heima í fjáraukalögum.