143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að greiða götu þessa máls úr því það er komið af stað á annað borð og mikilvægt að það bíði ekki lengi eitthvert réttaróvissuástand eftir að væntingar eru komnar um að fullnustuaðgerðir verði stöðvaðar eða frystar tímabundið.

Ég held að það sé skynsamlegt að horfa yfir það sem gert var í þessum efnum á síðasta kjörtímabili og hæstv. ráðherra kom reyndar lítillega inn á það. Þá var farið í sambærilega aðgerð í býsna langan tíma og ítrekað framlengd stöðvun á nauðungaruppboðum á meðan verið var að búa til skjól til að fólk kæmist í þau úrræði sem í boði voru og nýta sér þau. Sömuleiðis var fresturinn styttur eða ferlið stytt niður í tvö ár og opnaður farvegur fyrir fólk til að hafa aðgang að eignum sínum í vissan tíma eftir uppboð. Allt skiptir þetta máli og hefur áhrif nú þegar þessi aðgerð er aftur tekin upp.

Ég tel vonbrigði í sjálfu sér, úr því í þetta er farið á annað borð, að það skyldi ekki vera gert í vor, vegna þess að væntingar fólks hafa staðið til þess að slíkar aðgerðir yrðu að veruleika allt frá kosningum og strax á vordögum. Við verðum að horfast í augu við að eitthvað af slíkum uppboðum hefur farið fram í sumar og haust þar sem aðstæður kunna að vera mjög keimlíkar þeim sem núna verða hins vegar stöðvaðar.

Að síðustu verðum við jafnframt að hafa í huga, ef hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa ekki gert það, að svo lýkur þessu tímabili, hvort sem það verður 1. júlí eða 1. september.

Því miður verður að horfast í augu við reynsluna af því að þá kemur óþægilegur tími þegar aðgerðir hefjast á nýjan leik. Ósköp einfaldlega vegna þess að hinar margboðuðu aðgerðir og rómaðar sem þær eru, að minnsta kosti (Forseti hringir.) af aðstandendum, munu ekki leysa vandræði allra, þá munu aftur hefjast nauðungaruppboð.