143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eitt af þeim málefnum sem ég held að hafi vakið okkur mörg til umhugsunar um siðferði, lög og reglur í þessu landi er málefni Eirar þar sem stjórnendur þinglýstu lánum á eignir sem íbúar höfðu þegar greitt fyrir búseturétt í. Þetta þýðir í versta falli að íbúar tapa því sem þeir greiddu fyrir búseturéttinn en í besta falli að veruleg töf verður á því að lögmætir eigendur fái eignir sínar til baka.

Það eru nokkrar stórar spurningar í þessu máli. Það er ljóst að Eir er sjálfseignarstofnun og því bera stofnaðilar Eirar enga ábyrgð á eignum eða skuldbindingum. Hver er önnur ábyrgð? Í hverju felst ábyrgð þeirra sem koma að slíkum rekstri, framkvæmdastjóra, stjórnar, fulltrúaráðs og stofnaðila?

Ég geri þetta að umtalsefni hér því að mér finnst mjög mikilvægt að við veltum fyrir okkur hvað við getum lært af þessu máli og hvernig við getum komið í veg fyrir að svona lagað endurtaki sig. Þessar spurningar snúa að okkur hér: Þarf lagabreytingu til að slíkt geti ekki endurtekið sig? Er nóg að setja reglur eða þarf einfaldlega umræðu og upplýsingar? Hvað felst til dæmis í hugtakinu búseturéttur? Er það einhvers staðar skilgreint? Hvað felst í umsögnum Ríkisendurskoðunar og sýslumanns þegar veittar eru heimildir til veðsetningar? Þetta eru spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur og skoða, virðulegi forseti.