143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er heldur holur hljómur í því þegar hv. þingmenn minni hlutans tala um að meiri hlutinn fari mjúkum höndum um þá sem mest hafa og hlífi ekki þeim sem minna mega sín. Þetta eru fulltrúar ríkisstjórnar sem kenndi sig við skjaldborg heimilanna og við vitum hvernig sú saga fór. Hana þekkja allir og hún var gerð upp af fólki í þessu landi í síðustu kosningum. Ekki þurfti að velkjast neitt í vafa um hver niðurstaða þjóðarinnar var í mati á vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar síðustu fjögur árin í þágu skjaldborgar fyrir heimilin í landinu.

Nú kemur hv. þm. Helgi Hjörvar hingað og tilkynnir okkur að vinnu við skuldamál heimilanna sé ekki nærri lokið, það sé mikil vinna eftir á þeim vettvangi. Hann er fulltrúi sömu ríkisstjórnarflokka sem voru hér á síðasta kjörtímabili og sögðu: Hingað og ekki lengra. Lengra verður ekki komist. (Gripið fram í: Það er rangt.) Við erum búin að gera það sem hægt er að gera. Þeir vilja ekki í þessum málum frekar en öðrum kannast við krógann sinn. Það er mjög algengt hjá þessum stjórnarflokkum. Þetta gagnrýna þau á sama tíma og við erum að lækka skuldir heimilanna um 20 þús. milljónir á næsta ári. Við erum líka að fara sérstaka skattaívilnunarleið með séreignarlífeyrissparnaðinn. Við erum að setja 5 þús. milljónir til viðbótar til eldri borgara og öryrkja. Við erum að setja 5 þús. milljónir í að lækka skatta á millistéttina í þessu landi sem drífur hagkerfið áfram. Og við erum að setja um 4 þús. milljónir til viðbótar í heilbrigðiskerfið. (Gripið fram í.) Það er auðvitað eðlilegt að þeim svíði sá árangur, þau sem höfðu fjögur ár og gerðu ekki betur í störfum sínum en raun ber vitni.

Hér kemur hv. þm. Ögmundur Jónasson og tilkynnir okkur að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu muni setja heilbrigðiskerfið á hausinn. Þetta er sá hinn sami og kenndi sig við norrænt velferðarkerfi sem við vitum að byggir meira og meira (Forseti hringir.) á því að stunda sjálfstæðan rekstur í heilbrigðisþjónustunni með mjög góðum árangri. En hérna er verið að upphefja hræðsluáróðurinn sem við þekkjum frá fyrri tímum, allt frá því að þessi sami hv. þingmaður lokaði St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og við munum hvernig hann barðist þegar okkur bar að breyta starfseminni. (ÖJ: Ertu að segja að fjárfestar, gróðapungar … að andinn sé betri núna?)