143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi ráðstöfun þykir mér slæm, þ.e. í fyrsta lagi að fella niður fjárheimildir á liðnum Græna hagkerfið sem hér myndaðist mikil þverpólitísk samstaða um og er ekkert einsdæmi fyrir Ísland heldur er í umræðunni alls staðar á Norðurlöndum og í Evrópu hvernig við getum unnið að því að grænka atvinnulíf okkar og tengist því sem ég sagði áðan að byggja upp sjálfbæran vöxt.

Mér finnst líka einkennileg ráðstöfun að leggja til í raun aukafjárveitingar til Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands, sem ég skil mætavel þörfina á, en fela þær undir lið sem heitir Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl., eða Græna hagkerfið og alls konar eins og þessi liður er farinn að kallast í almennu máli.

Mér finnst þetta sérkennilegt. Ég hefði frekar viljað sjá þær fjárveitingar merktar fyrir það sem þær eru. Ég mundi styðja þær fjárveitingar en það væri miklu eðlilegra að hafa þær bara uppi á borðum.