143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. 4. þm. Reykv. s., Pétur H. Blöndal, út í eitt má segja lagatæknilegt eða þinglegt atriði sem varðar atriði þessa máls og það er sú staðreynd að inn í þetta frumvarp eiga nú að bætast samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans þrír nýir kaflar eða það á að opna upp löggjöf á þremur nýjum sviðum hér við 2. umr. málsins. Af því hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oft lagt margt gott til mála í sambandi við bætt vinnubrögð hér á þingi, og ekki síst varðandi sjálfstæði Alþingis og frumkvæði við lagasetningu og annað í þeim dúr, læt ég mér detta í hug að hv. þingmaður sé ekkert sérstaklega ánægður með þetta ráðslag. Auðvitað er sökin ekki hv. þingmanns eða efnahags- og viðskiptanefndar því það er augljóslega hér við ríkisstjórn og ráðuneyti að sakast, frumvarpið er auðvitað vanbúið þegar það kemur til okkar hér í haust. Það vantar inn í það breytingar á tilteknum lögum sem alls ekki eru opnaðar upp með frumvarpinu þegar það er lagt fram. Auðvitað hefur annað eins gerst áður, það viðurkenni ég fúslega, en aldrei hefur þetta samt þótt góð latína. Það leiðir til þeirra vandkvæða meðal annars að þessi efnisatriði frumvarpsins eða væntanlegra laga fá aldrei hér þrjár umræður eins og stjórnarskrá og þingsköp gera ráð fyrir. Það leiðir líka til þess að þingnefndin hefur þetta ekki í sínum höndum til að senda út til umsagnar með sama hætti og efnisatriði frumvarpsins að öðru leyti.

Ég vil aðeins heyra sjónarmið hv. þingmanns í þessum efnum án þess að ætla að gera þetta að stóru máli, þannig að ég vil nota fyrra andsvar mitt til að taka þetta mál upp og vekja athygli á því að við erum því miður með svona í farteskinu miðað við breytingartillögur meiri hlutans.